Össur Skarphéðinsson lagði fram fyrirspurn í síðasta mánuði til dómsmálaráðherra um verktakakostnað embættis sérstaks saksóknara. Dómsmálaráðherra hefur svarað fyrirspurninni þar sem fram kemur að heildarverktakakostnaður embættisins frá árinu 2009 til 2014 hafi numið tæpum 641 milljón króna.

Jón H. B. Snorrason, aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, er meðal verktaka sem fengið hafa greiðslur frá embættinu á tímabilinu og nema þær rúmlega 18 milljónum króna. Sigurður Guðni Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og verjandi Sigurjóns Árnasonar, gerir upplýsingarnar að umtalsefni í stöðuuppfærslu á fasbók. Þar veltir hann fyrir sér hvort eðliegt sé að opinber starfsmaður sem fái launagreiðslur frá ríkinu geti verið verktaki hjá annarri opinberri stofnun.

Kom ekki niður á störfum fyrir lögregluna

Jón segir hins vegar að ekkert sé óeðlilegt við störf sín fyrir embætti sérstaks saksóknara og ef svo væri hefði hann aldrei gefið kost á sér í þau. „Fyrir þessu hafði ég beiðni frá sérstökum saksóknara og ráðuneytinu um að aðstoða embættið, og hafði að sjálfsögðu leyfi frá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og ráðuneytinu sjálfu,“ segir Jón í samtali við Viðskiptablaðið.

Aðspurður hvar hann hafi sinnt umræddum verkefnum segir hann það ýmist hafa verið hjá embætti sérstaks saksóknara, heima hjá sér eða hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. „Ég hef hagað þessu þannig að ég hef getað skilað þessu af mér með því að vinna utan vinnutíma hjá lögreglunni, og gert það á kvöldin og um helgar.“ Spurður hvort þetta hafi komið inn á vinnutíma hans hjá lögreglunni segir Jón svo vera, en þá hafi vinnutími hans hjá lögreglunni lengst á móti. Því hafi vinna hans fyrir sérstakan saksóknara ekki komið niður á vinnu hans sem aðstoðarlögreglustjóri.

Jón segir vinnu sína fyrir embætti sérstaks saksóknara hafa falist í ráðgjöf og úrlausnum í ákveðnum málum sem óskað var eftir að hann veitti aðstoð í. Aðspurður hvort hann hafi skrifað ákærur fyrir embættið segist hann meðal annars hafa veitt aðstoð við það.