Finnbogi Jónsson, framkvæmdastjóri Framtakssjóðs Íslands (FSÍ), segist ekki sjá neitt óeðlilegt við að fyrrum stjórnarformaður Icelandic Group, Friðrik Jóhannsson, starfi fyrir og komi á viðræðum við Triton fjárfestingasjóð um kaup á erlenda hluta Icelandic Group. Finnbogi var í viðtali í Kastljósi í kvöld.

Friðrik Jóhannsson, fyrrum stjórnarformaður Icelandic Group, kom á viðræðum á milli Framtakssjóðs Íslands og Triton um kaupin. Finnbogi sagði FSÍ engu ráða um hverja Triton velji sér til aðstoðar á Íslandi. Þá sagði hann að þegar Friðrik bar upp tilboð Triton þá var mark á því takandi. „Ég sé í sjálfu sér ekkert rangt við það þó að fyrrverandi stjórnarformaður tengist félagi sem hefur áhuga á Icelandic. Sýnir að hann hefur trú á Icelandic,“ sagði Finnbogi. Hann sagði að farið var í viðræður á þeim grundvelli að verðhugmyndir FSÍ stæðu.

Aðspurður hvers vegna ekki var farið í opið söluferli á Icelandic sagði Finnbogi að hlutverk FSÍ sé að ávaxta peninga lífeyrisþegar. Hann sagði að þegar FSÍ kom að málum eftir hrun þá átti sér stað ákveðin rústabjörgun. Ekkert af þeim fyrirtækjum sem sjóðurinn hefur keypt hafi verið útboðshæf og ekki hafi verið val á þeim tíma um að fara í opið útboð. Hann ítrekaði að sjóðurinn leiti samstarfs.

Finnbogi sagði það almenna reglu FSÍ að selja fyrirtæki í opnu söluferli. Það sé þó metið í hverju tilviki fyrir sig og skili ekki endilega hæsta verði. Ef ákvörðun um að fara einungis í viðræður við Triton væri ekki verið að selja erlenda hlutann í heilu lagi, sagði Finnbogi.

Aðspurður hvort einhverjir baksamningar við stjórnendum Icelandic, t.d. Finnboga Baldvinsson forstjóra Icelandic Group,  séu tengdir kaupum Triton sagði Finnbogi að FSÍ taki ekki þátt í neinum slíkum samningum. Fyrir um hálfum mánuði hafi aðstoðarforstjóri Icelandic fullyrt að engir slíkir samningar séu til. Hins vegar benti Finnbogi á að sjóðir eins og Triton væru að veðja á framkvæmdastjórateymið í Icelandic.