Hlutfall umsækjenda hjá umboðsmanni skuldara sem falla í yngsta aldurshópinn hefur hækkað stöð­ugt frá stofnun. Árið 2010 var 1% umsækjenda um greiðsluaðlögun yngri en 30 ára. Í fyrra var hlutfallið 25%.

Út frá þessari þróun hefur verið ályktað undanfarin ár að ungt fólk sé í auknum mæli að stökkva út í skuldasúpuna. Það er þó talsverð einföldun.

Fjöldi ungra umsækjenda um greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara hefur verið sveiflukenndur frá stofnun. Árið 2011 voru þeir 57 talsins, 38 árið 2013 og 72 í fyrra. Ungir umsækjendur voru því nokkrum tugum fleiri í fyrra heldur en áður. Á móti kemur að umsækjendum eldri en 29 ára hefur fækkað verulega. Árið 2011 voru þeir 2.212 talsins en í fyrra voru þeir 218.

Ungum umsækjendum hefur því fjölgað um rúmlega 26% frá 2011, en eldri umsækjendum hefur fækkað um 85%. Hærra hlutfall ungra umsækjenda skýrist því ekki aðeins af auknum fjölda ungra umsækenda, heldur einnig af verulegum samdrætti í fjölda umsækjenda eldri en 29 ára.

Þá má einnig benda á að hærra hlutfall ungra umsækjenda er ekki lýsandi fyrir fjárhagslega stöðu ungs fólks á Íslandi. Fjöldi umsækjenda yngri en 30 ára í fyrra var að­ eins 0,12% af heildarfjölda Íslendinga í sama aldurshópi. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fækkaði í hópi skuldsettra einstaklinga yngri en 30 ára um 7% milli 2010 og 2015. Þá hefur eiginfjárstaða þessa hóps stórbatnað undanfarin ár og sjaldan verið sterkari og ráðstöfunartekjur þeirra hækkað verulega. Það er því óvarlegt að álykta um fjárhagslega stöðu ungs fólks á Íslandi út frá svo litlu úrtaki.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .