„Ég tel gríðarleg sóknarfæri möguleg fyrir skólann og byggðir í Borgarfirði að sameina Háskóla Íslands og Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri og skjóta þar sem styrkari stoðum undir starfsemi skólans,“ segir Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra. Hann benti á það í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag að starfsemi Landbúnaðarháskólans hafi dregist saman um 30% á síðastliðnum fimm árum. Hann hafi átti við rekstrarvanda að etja um langt skeið og nemi uppsafnaður halli hans nú 700 milljónum króna.

Það var Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingkona VG, sem vakti athygli á málefnum Landbúnaðarháskólans á Alþingi. Hún sagði ekki vilja fyrir sameiningunni heima í héraði, hvorki faglegan ávinning af henni né fjárhagslegan. Þá vitnaði hún til skýrslu þar sem mælt er með fjölbreytni í námi og svari litlir háskólar þeirri eftirspurn. Lilja Rafney sagði jafnframt mikla hættu á að búfræðinám verði veikt með sameiningunni við Háskóla Íslands. Hún spurði Illuga að því hvort það væri stefnan.

Illugi vísaði því á bug og ítrekaði að Landbúnaðarháskólinn verði að halda sig innan fjárheimilda í skugga samdráttar.