Margir sem skoða módel af litlum íbúðum í Ikea geta vel hugsað sér að búa í álíka íbúðum. Það er hins vegar ómögulegt þar sem nýleg byggingareglugerð bannar að innangengt sé úr stofu inn á bað. Gang vantar á milli, að sögn Jóns Þorvaldar Heiðarssonar, lektors við Háskólann á Akureyri. Með ganginum er strax búið að stækka alla íbúðina.

Jón Þorvaldur var í viðtali í Speglinum á RÚV síðdegis í dag. Þar ræddi hann um nauðsyn þess að endurskoða nýlega byggingareglugerð til að svara kalli markaðarins og leyfa byggingu lítilla íbúða.

„Ríkið má ekki vera til trafala fyrir því að byggja lítið húsnæði, það er bæði nauðsynlegt á leigumarkaði og að þeir sem vilji eiga íbúðir geti byrjað smátt,“ sagði Jón.