Ekki er hægt að skipta um gjaldeyri hér á landi fyrr en undirliggjandi efnahagur landsins er kominn í lag, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann sagði í viðtali við RÚV í morgun stöðuna í efnahagslífinu nú þá að tökum þurfi að ná á því að aflétta höftum. Það verðir ekki gert með því að skipta um gjaldmiðil heldur verði að vinna á rót vandans.

Á hinn bóginn sagði Sigmundur stórt atriði að gjaldmiðillinn skapi stöðugleika, sem krónan hafi ekki gert fram til þessa.

„Ef gjaldmiðill er mjög sveiflukenndur þá er erfitt að gera áætlanir. Hins vegar er ekki hægt að skapa stöðugleika með því að skipta um nafn á gjaldmiðlinum. Það verður að byrja á efnahagslífinu sem gjaldmiðillinn grundvallar á. Eins og staðan er núna þarf að ná tökum á því að aflétta höftum. Það verður ekki gert með því að skpta um gjaldmiðil. Við leysum ekki málinu nema byrja á grunninum, á undirliggjandi vandanum. Við höfum forræði yfir honum,“ sagði Sigmundur og vísaði til þess að Ísland stæði utan við Evrópusambandið og hefði ekki kastað krónunni fyrir evruna sem þjóðargjaldmiðil.

Hann benti á að hefði evran verið gjaldmiðill hér í hruninu þá hefði mátt gera ráð fyrir því að fjármagnseigendur hefðu farið út með peninga sína eins og útlit var fyrir. Seðlabankinn hefði þá þurft að kaupa erlendan gjaldeyri, þ.e. evrur, í töluverðu magni.