*

miðvikudagur, 22. september 2021
Innlent 17. júlí 2021 08:56

Segir ekki hættu á kennitöluflakki

Staðfestingu nauðasamnings Allrahanda GL var mótmælt af 11 kröfuhöfum. Stjórnarformaður félagsins telur áhyggjur þeirra óþarfar.

Jóhann Óli Eiðsson
Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda GrayLine.
Árni Sæberg

Alls mættu ellefu kröfuhafar ferðaþjónustufélagsins Allrahanda GL ehf. í Héraðsdóm Reykjavíkur í liðinni viku og mótmæltu því að fyrirhugaður nauðasamningur félagsins fengist staðfestur.

Af samræðum Viðskiptablaðsins við kröfuhafa má ráða að þeir hafi áhyggjur af mögulegu kennitöluflakki en stjórnarformaður félagsins segir slíkt af og frá. Sagt var frá drögum Allrahanda að nauðasamningi í Viðskiptablaðinu fyrir tveimur vikum.

Þar var á ferð einföld gerð slíks samnings samkvæmt lögum um tímabundnar heimildir til fjárhagslegrar endurskipulagningar. Í slíkum samningi felst að félag fer ekki fram á eftirgjöf skulda heldur að lengt verði í þeim, engir gjalddagar verði í þrjú ár og að dráttarvextir breytist í samningsvexti. Samþykki kröfuhafa er ekki áskilið fyrir slíkum samningi heldur þarf aðeins samþykki héraðsdóms. Af kröfuhöfunum ellefu tengdust átta annað hvort Hópbílum eða Kynnisferðum. Hinir þrír voru N1, Landsbankinn og að síðustu Isavia.

Ekki þarf að koma á óvart að N1 hafi mætt, en fyrir rúmlega hálfu ári mótmælti félagið áframhaldandi veru Allrahanda í greiðsluskjóli. Að mati N1 voru skilyrðin fyrir því aldrei uppfyllt, þar eð félagið hefði í raun verið komið í greiðsluþrot áður en faraldurinn skall á. Landsréttur taldi hins vegar að „ekki [væri] upplýst að aðstæður hafi verið með þeim hætti“ að lögskylt hefði verið að setja félagið í þrot. Breyting á nafni og hlutverki félagsins Græn orka ehf., sem nú heitir GL Iceland ehf., hefur síðan vakið spurningar um mögulegt kennitöluflakk.

Eignarhlutföllin í því eru þau sömu og í Allrahanda, það er að Þórir Garðarsson og Sigurdór Sigurðsson eiga 25,5% hvor og Akur fjárfestingar slhf., sem er í stýringu Íslandssjóða og meðal annars í eigu ýmissa lífeyrissjóða, Íslandsbanka og VÍS, eiga 49%. 

Algengt fyrirkomulag

„Markmiðið með nýja félaginu er að aðskilja ferðaskrifstofuna og rútureksturinn, en slíkt er alþekkt. Bílarnir og fasteignirnar verða áfram í gamla félaginu og nýja félagið mun kaupa alla þjónustu af því. Það munu því engar tekjur koma inn í nýja félagið án þess að þær renni áfram inn í Allrahanda. Ferðaskrifstofurekstur er leyfisskyldur og bundinn skilyrðum samkvæmt lögum. Slíkt er ekki raunhæft nema félagið sé vel fjármagnað upp á að geta notið trausts á markaði,“ segir Þórir Garðarsson, stjórnarformaður Allrahanda.

Fólk þurfi því ekki að hafa neinar áhyggjur af því að eitthvert kennitöluflakk sé í pípunum. Sem fyrr segir áætlar félagið ekki að fara fram á eftirgjöf skulda en samkvæmt nýjasta ársreikningi þess nema skuldir 2.066 milljónum króna. Hefur það verið dregið í efa að áætlanir stjórnenda standist en Þórir segir slíkt af og frá.

„Þetta er fullkomlega raunhæft plan. Félagið átti tvö mjög erfið ár, árin 2018 og 2019, en slíkt kemur fyrir og er ekkert óeðlilegt í rekstri. Við vorum búnir að ná mikilli hagræðingu í lok árs 2019 og byrjun 2020, sem sést best á því að fyrstu tvo mánuði 2020, áður en farsóttin skall á, var hagnaður í félaginu,“ segir Þórir.

„Við áttum alltaf von á því að einhverjir kröfuhafar myndu mótmæla og þetta er nú ekki hátt hlutfall þeirra. Við teljum okkur vera að leggja þetta fram nákvæmlega eins og lögin mæla fyrir um. Áætlanir okkar gera ráð fyrir því að greiða 100% krafna, með vöxtum, og er það ekki síst til að tryggja hagsmuni almennra kröfuhafa,“ segir Þórir. 

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: Allrahanda GL