„Menn er að velta framtíðinni fyrir sér, hún er örugglega mjög óræð,“ segir Hannes Karlsson, stjórnarformaður Sambands íslenskra samvinnufélaga (SÍS). Spurður hvort til standi að leggja félagið niður vísar hann öllu slíku á bug: „Nei, það kemur aldrei til! En það er gott að setjast niður og fara yfir stöðu.“

SÍS var ein stærsta viðskiptablokk landsins á árum áður og með ítök á flestum sviðum viðskiptalífsins allt frá árinu 1902 til 1992 þegar starfsemi þess var orðin nánast engin vegna skuldaklafa. SÍS rambaði um tíma á barmi gjaldþrots. En félagið fór þó ekki á hliðina enda greiddi félagið 98% af skuldum sínum. Í dag er SÍS félagslegur vettvangur kaupfélaga landsins. Í félaginu eru 22 kaupfélög. Hannes segir þau orðin ansi fá eftir sem eru virk enda sum kaupfélaganna ekki lengur starfandi.

Þrátt fyrir hamfarasögu SÍS segir Hannes félagið mjög lifandi og halda fundi reglulega.

Stjórn SÍS auglýsti í vikunni aðalfund í Safnahúsinu á Húsavík á laugardag í næstu viku. Á dagskrá eru hefðbundin aðalfundarstörf auk þess sem málþing verður haldið um samvinnufélög. Á meðal ræðumanna þar eru Oddný Harðardóttir, fyrrverandi ráðherra vinstristjórnarinnar, og Jón Sigurðsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokkinn.