*

miðvikudagur, 16. júní 2021
Innlent 4. maí 2018 17:24

Segir ekki vafa á rekstrarhæfi

Forstjóri 66° Norður segir að búið sé að ganga frá samningum um langtímafjármögnun og að aldrei hafi verið vafi á rekstrarhæfi félagsins.

Ritstjórn
Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri og eigandi 66° Norður.
Aðsend mynd

Búið er að tryggja langtímafjármögnun 66° Norður og því er enginn vafi á rekstrarhæfi félagsins að sögn Helga Rúnars Óskarssonar, framkvæmdastjóra félagsins. 

Viðskiptablaðið greindi frá því fyrr í dag að í ársreikningi félagsins segði að óvissa gæti verið um rekstrarhæfi félagsins ef ekki næðist að tryggja langtímafjármögnun.

Helgi Rúnar segir að í raun hafi aldrei verið vafi á rekstrarhæfi félagsins en alþjóðlegir reikningsskilastaðlar hafi valdið því að nauðsynlegt var að flokka langtímaskuldir undir skammtímaskuldum vegna þess að viðskiptabanka var heimilt að gjaldfella langtímaskuldir vegna skilmála m.a. hvað varðar lágmarks eiginfjárhlutfall. 

 „Við gerum upp eftir alþjóðlegum reikningaskilastöðlum. Það er töluverður munur á íslenskum ársreikningalögum og þessum alþjóðlegu, það eru kvaðir í alþjóðlegu reikningsskilalögunum að lán sem hægt er að gjaldfella séu  öll skilgreind sem skammtímalán. 

Þegar reikningurinn er kláraður þarna í janúar að þá erum við bara í viðræðum við bankann og erum að klára þetta. Síðan þá er búið að ganga frá öllum samningum,“ segir Helgi Rúnar. 

Þannig að þið hafið náð langtímasamningum við ykkar viðskiptabanka?

„Við erum með þannig samninga að rekstrarhæfi félagsins er tryggt. Það hefur aldrei verið nein óvissa um það þó að samkvæmt lögum og reglum verði að setja þetta fram með þessum hætti. 

Við erum bara á fullri ferð áfram sem fyrirtæki og það sjá það náttúrulega allir sem lesa svona reikninga að félag sem er með þetta viðamikinn rekstur eins og við, er ekki að fjármagna sig alltaf með skammtímafjármögnun. 

Til dæmis bara í okkar bransa þá er það þannig að við kaupum inn gríðarlega miklar birgðir og stór hluti af þessum birgðum er fjármagnaður með lánalínum. Þessar lánalínur verður að skilgreina sem skammtímafjármögnun og ef endurskoðandi er ekki með vissu fyrir því, akkúrat þegar hann skrifar undir reikninginn, að banki muni framlengja þessum lánalínum að þá er kominn efi um rekstrarhæfi félagsins. 

Þetta er eitthvað sem við erum búin að vinna með í mörg, mörg ár og endurnýjum reglulega,“ segir Helgi Rúnar. 

Ennfremur segir hann að ársreikningur félagsins hafi verið kláraður óvenju snemma þetta árið og að síðan þá hafi mikið vatn runnið til sjávar. „Við klárum reikninginn óvenju snemma núna þannig að þegar að þetta er unnið þá er staðan akkúrat þessi, en svo heldur reksturinn áfram og við klárum okkar mál og okkar samninga,“ segir hann. 

Í ársreikningi félagsins segir að stjórn félagsins vinni að hlutafjáraukningi til að styðja við áframhaldandi vöxt þess á erlendum mörkuðum og styrkja fjárhagsstöðu félagsins. Eiginfjárhlutfall félagsins í lok árs 2017 var 4,1%. Aðspurður um hvort eiginfjáraukning muni eiga sér stað segir Helgi: „Við erum alltaf að skoða hvernig er best að fjármagna vöxt félagsins fyrir framtíðina og það eru náttúrulega tvær leiðir til þess að gera það. Önnur er að auka hlutafé en hin er að fjármagna það í gegnum bankafjármögnun. 

Reksturinn er að fara mjög vel af stað á þessu ári. Við erum með 25% aukningu á tekjum og höfum eins og kemur fram í tilkynningunni frá okkur verið að fjárfesta mjög mikið undanfarin ár í uppbyggingu. Það hefur kostað pening en við sjáum fram á mikið betri rekstur framundan. Fyrstu mánuðirnir sýna það að þessar fjárfestingar eru að skila sér í auknum tekjum. 

Við munum náttúrulega halda áfram að skoða það hvaða fjármögnunarleið er best. Eins og staðan er í dag þá erum við með bankafjármögnun og hún er að duga okkur vel,“ segir hann.

En eru frekari fjárfestingar í nýjum verkefnum í kortunum?

„Ekki alveg í augnablikinu, við erum í raun og veru búin að fjárfesta gríðarlega hérna á Íslandi. Erum búin að endurbyggja nánast hverja einustu búð á Íslandi og erum búin að opna þrjár búðir út í Danmörku þannig það er ekkert í kortunum núna hvað varðar frekari fjárfestingar. Við munum bara halda áfram að byggja vörumerkið upp eins og við höfum verið að gera,“ segir Helgi Rúnar.