Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar, segir fyrirtækið hafa staðið við sinn hlut gagnvart öllum sínum starfsmönnum og samfélaginu í heild. Hann hafnar „gróusögum“ sem hann segir hafa grasserað í samfélaginu um verðlagningu á uppsjávarfiski.

Þetta segir hann í grein sem birt er á vef Síldarvinnslunnar . Greinin fer hér á eftir í heild:

Vegna umræðu um verðlagningu á uppsjávarfiski vil ég sýna fram á og undirstrika að Síldarvinnslan í Neskaupstað hefur staðið við sinn hlut gagnvart öllum sínum starfsmönnum og samfélaginu í heild, eins og henni ber að gera. Enginn hefur verið hlunnfarinn í þeim samskiptum eins og látið hefur verið í veðri vaka. Síldarvinnslan leitast ætíð eftir því að selja afurðir á hæsta mögulega verði, skila afrakstrinum heim og afsetur engan hagnað í félögum á erlendri grundu, enda ekki tengd neinum félögum þar. Við höfum ekkert að fela í þessum efnum enda lagt metnað okkar í að hafa allt uppá borðum og er ég tilbúinn að ræða við hvern þann sem telur sig geta bent á hið gagnstæða.

Tilefni skrifa minna er að undanfarin misseri hafa grasserað gróusögur í samfélaginu um verðlagningu á uppsjávarfiski, sem fást ekki staðist þegar gögn eru skoðuð. Ýmsir málsmetandi menn hafa látið að því liggja að íslensk fyrirtæki stundi óheiðarleg viðskipti og séu hreinlega að svindla og stela af þjóðinni. Síldarvinnslan í Neskaupstað stundar ekki neitt slíkt og vísar því til föðurhúsanna.

Forsendur verðútreikninga liggja fyrir

Hráefnisverð á Íslandi er myndað samkvæmt samkomulagi milli fyrirtækja og áhafna. Það tekur mið af verðmæti afurðanna sem framleiddar eru hverju sinni.

Verðlagsstofa, sem er opinber stofnun, hefur fengið sölusamninga og forsendur verðútreikninga til yfirferðar frá Síldarvinnslunni án þess að hafa nokkurn tíma gert athugasemdir þar við, enda er farið eftir gildandi samkomulagi í uppgjöri við sjómenn. Hér ræður engin hentistefna eða undanskot.

Við hittum okkar áhafnir reglulega og förum yfir ástand markaða og útlit hverju sinni. Áhöfnin getur hvenær sem er fengið aðgang að upplýsingum hjá okkur, labbað inn og út úr vinnslunum og fylgst með framleiðslunni, trúnaðarmaður hefur aðgang að sölusamningum og framleiðslutölum.

Gagnsæ virðiskeðja hjá SVN

Síldarvinnslan selur frystar afurðir að stærstum hluta í gegnum sölufyrirtæki sem tekur umboðslaun, greiðir frakt og umsýslu ef einhver er og skilar verðinu sem eftir stendur.

Mjöl og lýsi selur Síldarvinnslan til erlendra kaupenda, á milli í þeim viðskiptum er erlendur umboðsaðili sem tekur ákveðna þóknun eins og venjan er í umboðssölu.

Lítill hluti af mjöli og lýsi er seldur innanlands til Fóðurverksmiðjunnar Laxár, verðlagningin tekur mið af markaðsverði hverju sinni.

Síldarvinnslan á ekki hlut eða tengist neinu af þeim erlendu félögum sem verslað er við. Við sum þeirra er viðskiptasamband sem staðið hefur í áratugi.

Síldarvinnslan á í miklum samskiptum við sína stærslu viðskiptavini erlendis.

Hráefnisverð samkvæmt samningum

Í gildi er samkomulag milli útgerða og sjómanna um með hvaða hætti staðið skuli að verðmyndun hráefnis.

Hjá Síldarvinnslunni er þetta alveg skýrt. Miðað er við, að lágmarki, að 33% af skilaverði til manneldisvinnslu fer til skips og 55% af skilaverði til mjöl- og lýsisvinnslu. Þetta eru þau hlutföll sem stuðst við í útreikningum á hráefnisverði.

Áskorunin í okkar kerfi er að við erum að áætla verð á hráefni og greiða fyrir til skipa jafnóðum, en afurðir seljast oft ekki fyrr en mörgum mánuðum seinna. Því getur þetta oft sveiflast í báðar áttir, bæði er markaðsverð sveiflukennt og eins þekkja nú flestir flöktið á íslensku krónunni.

Aðferðir til að tryggja rétt verð til áhafna eru skilgreindar í samningum og geta trúnaðarmenn þeirra farið yfir allar forsendur verðlagningar. Einnig fær Verðlagsstofa skiptaverðs afrit af sölusamningum send. Gagnsæið verður varla mikið meira og uppgjör miðast ávallt við gildandi samninga.

Útkoman jákvæð fyrir sjómenn

  • Ef við skoðum hvernig hráefnisverð hefur þróast í mjöl- og lýsisvinnslu á árunum 2013-2018 sést að hlutfallið sem fer til til áhafnar hefur verið í kringum 55% af söluverðmæti en fer niður í 51,9% og uppí 57,1%. Á þessu 6 ára tímabili fer þetta 3 sinnum yfir og 3 sinnum undir og meðaltalið er um 55%.

  • Ef við skoðum manneldisvinnsluna hjá Síldarvinnslunni, það er sá hluti vinnslunnar á uppsjávarafurðum sem fer til manneldis, á árunum 2013-2018 sést að þar er hlutfallið af skilaverðinu sem fellur áhöfnum í skaut frá 34,4% uppí 43,3%. Meðalverð þessa tímabils er 39,1% en samkvæmt samningum skal það ekki vera lægra en 33%.

  • Þegar við skoðum fyrrnefnt samkomulag og greitt verð samtals að teknu tilliti til manneldis- og fiskimjölsvinnslunnar sést að þrátt fyrir framangreindar sveiflur þá liggur verðið allstaðar yfir því sem kveðið er á um í samkomulaginu.

Ósanngjarn málflutningur sjómanna

Forsvarsmenn sjómanna Síldarvinnslunnar hafa farið fram með auglýsingar og dylgjað um það í fjölmiðlum að fyrirtækin geri hlutina eins og þeim sýnist. Slíku vísa ég til föðurhúsanna í tilfelli Síldarvinnslunnar. Málflutningur eins og þessi er engum til framdráttar og allra síst til þess fallinn að bæta samskipti útgerða og sjómanna. Rétt er að hafa í huga að sjómenn og útgerðir eiga nú í kjaraviðræðum og kann það að skýra að einhverju leyti framferði forystumanna sjómanna. Telji menn á sér brotið verða þeir að benda á hina brotlegu og tilkynna þá til viðeigandi aðila, eða setja fram trúverðug rök fyrir málflutningi sínum.

Ef sjómenn telja sig svikna tel ég rétt að gera grein fyrir hverju sú aðferðarfræði og það samkomulag, sem hér hefur verið lýst, skila uppsjávarsjómönnum Síldarvinnslunnar, en þeir eru launahæstu starfsmenn fyrirtækisins.

Engir sjómenn eru sviknir um greiðslur samkvæmt þessu kerfi sem samkomulag er um, enda skila verðmætin sér í greiðslum fyrir þeirra störf. Í töflunni fyrir neðan má sjá greiðslur til þeirra fyrir árin 2016-2019.   Hér kemur fram að laun á úthaldsdag 2019 voru 162 þúsund, á sama tíma voru laun á frystitogara fyrirtækisins um 82 þúsund á úthaldsdag og 81 þúsund á ísfisktogaranum.

  • Samdráttur hefur orðið mjög mikill á uppsjávarhráefni til fiskimjölsvinnslu síðastliðin ár og afkastageta því ónýtt og reksturinn óstöðugur. Við þessar aðstæður getur borgað sig að ná í viðbótarhráefni til að nýta afkastagetuna þrátt fyrir að hærra verð sé greítt.
  • Þetta tíðkast einnig í öðrum fisktegundum þar sem fiskverkendur ná oft í viðbótarhráefni á fiskmarkaði til að fullnýta afkastagetu. Þannig að það er ekkert öðruvísi í uppsjávarfiski, enda skapar þessi afli vinnu í landi.
  • Í samanburðafræði er bent á verðlagningu erlendis. Það liggur fyrir að þar er mikil umframafkastageta og er verð þar einfaldlega yfir því verði sem við getum selt vöruna á frá okkar vinnslum. Það liggur fyrir að norskar vinnslur eru gjarnan að greiða yfir 90% af skilaverði til skipa.
  • Samkvæmt því væri það oft skynsamlegt, ekki bara fyrir sjómennina heldur fyrirtækið líka, að sigla með aflann og fá þetta verð fyrir hann erlendis. En þá mun fólkið í vinnslunum heima sitja eftir aðgerðarlaust.
  • Þegar talið berst að makrílverðum þá liggur fyrir að við höfum ekki langa reynslu af makrílveiðum. Við erum að veiða hann í öðru ástandi en til dæmis Norðmenn, notum troll þar sem skipstjórnarmenn okkar telja hann ekki veiðanlegan í nót á þeim tíma sem við höfum aðgang að stofninum. Þetta er því verðminni afurð sem við framleiðum, stóran hluta af vertíðinni.
  • Norðmenn eru með mun sterkari stöðu t.d. á Asíumarkaði sem er best borgandi markaðurinn fyrir makríl. En þar liggur öll áhættan hjá vinnslunum sem oft á tíðum eru að borga allt uppí 95% af skilaverði afurða fyrir fiskinn.

Lokaorð

Við höfum langa reynslu af því hvernig samspil veiða og vinnslu getur tryggt ákveðinn stöðugleika, bæði á sjó og landi, í sveiflukenndu umhverfi þar sem markaðir eru síbreytilegir og ekki er gengið að aflanum vísum. Ég veit að allir í þessari virðiskeðju eru að gera sitt besta, hvort heldur er sjómenn, fólkið í vinnslunum eða þeir sem eru að selja fiskinn. Það er sjálfsagt að hafa allt uppi á borðum og ræða hlutina opinskátt og jafnvel beinskeytt. En við verðum að láta staðreyndir tala sínu máli í stað þess að hafa uppi ósanngjarnar og á stundum ófyrirleitnar upphrópanir. Ég vil vinna að sátt með samtali, samfélaginu okkar til hagsbóta.