Halldór Guðmundsson, forstjóri Hörpu, segir að ríkið og Reykjavíkurborg myndu ekki spara fé ef húsinu yrði lokað. Haraldur Flosi Tryggvason, varaformaður stjórnar Hörpu, sagði í Viðskiptablaðinu í síðustu viku að hann væri talsmaður þess að skoðað yrði hvort hægt væri að loka húsinu í heild eða að hluta.

Í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun sagði Halldór árlega greiði ríki og borg einn milljarð af lánum vegna hússins, auk 160 milljóna króna á ári í rekstur þess.

Halldór segir að árlega séu greiddar 355 milljónir í fasteignagjöld. Þó engin starfsemi verði í húsinu þurfi samt sem áður að borga af lánum auk fasteignagjalda. „En það koma engar tekjur á móti, svo ég sé ekki alveg hverju það á að skila,“ sagði Halldór við Rás 2.