Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, fullyrðir að ekkert liggi fyrir um hvaða hópar muni njóta góðs af skuldaniðurfellingum sem fyrirhugaðar eru. Þessar upplýsingar segist Helgi hafa eftir sérfræðingi úr hóp sem vann skuldaniðurfellinguna.

Helgi sagði að sérfræðingurinn hefði haldið því fram að engin greining hefði farið fram á því og engar upplýsingar liggi fyrir um það hvaða hópar fái þessar upphæðir úr ríkissjóði. Engin greining hafi heldur farið fram á því hvaða hópar fái þær ekki.  „Þar með er engin greining á því hvaða vandi stendur eftir,“ sagði Helgi Hjörvar í umræðum um störf þingsins. Það þyrfti að ræða skuldamálin í þinginu.

„Við vitum að það verður ekki leystur allra vandi, en það er mikilvægt að sofna ekki á verðinum og telja sér trú um það að maður hafi leyst vanda 80% heimila,“ sagði Helgi Hjörvar.