„Skráningarlýsingin dugar. Engu er logið þar. Hún liggur fyrir og er opinber. Ég held ég láti það duga,“ segir Finnur Árnason, forstjóri Haga, spurður um 810 milljóna króna lán sem félagið veitti Jóni Ásgeiri Jóhannessyni til að kaupa fjölmiðla 365 út úr félaginu og tryggði yfirráð sín yfir þeim áður en félagið fór í þrot í nóvember árið 2008. Fyrst var minnst á lánveitinguna í skráningarlýsingu Haga árið 2011.

Fram kemur í bókinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir blaðamennina Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson sem kom út í gær, að Jón Ásgeir og félög honum tengd greiddu Högum til baka aðeins um helming lánsins. Vitnað er til þess að í skráningarlýsingu Haga komi fram að ógreiddur helmingur lánsins hafi verið seldur til 365 miðla á 100 milljónir króna.

Þar var ekki um raunverulega peningagreiðslu að ræða, heldur fengu Hagar auglýsingainneign hjá 365 miðlum sem greiðslu fyrir hlutinn. Í bókinni sagði að Hagar hafi enn verið að nýta sér inneignina í vor á þessu ári. Um klára tekjuskerðingu fyrir 365 miðla var að ræða til að tryggja yfirráð Jóns Ásgeirs yfir miðlunum og hafi þeir greitt fyrir lántöku hans, að því er segir í bókinni.

Finnur vildi ekkert frekar tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.