Þýski heimspekingurinn Karl Marx ber ekki ábyrgð á þeim hörmungum sem hafa átt sér stað í hans nafni á undanförnum 100 árum. Evrópusambandið gæti jafnvel lært af því sem Marx stóð fyrir með því að einblína meira á samfélagslega velferð í samþættingu álfunnar.

Þetta sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, í ræðu sem hann flutti í Trier , heimabæ Marx í Þýskalandi, í tilefni af 200 ára afmæli Marx í gær. Juncker var einnig mættur til Trier til að afhjúpa nýja brons styttu af Marx sem stendur fyrir framan fæðingarstað hans. Styttan er gjöf frá alræðisstjórn Kommúnistaflokksins í Kína.

Karl Marx (1815–1883) er frægastur fyrir kenningar sínar um samfélagsmál, efnahagsmál og stjórnmál, sem gjarnan kallast Marxismi. Marx túlkaði þróun mannkynsögunnar sem röð átaka milli stéttar fjármagnseigenda (valdastéttarinnar, kapítalista) og stétt verkafólks. Taldi hann að framþróun mannlegs samfélags muni ná hápunkti í byltingu öreiganna þar sem stétt fjármagnseigenda er vikið frá völdum, stétt verkafólks öðlast yfirráð yfir öllu fjármagni og til verður stéttlaust samfélag. Frægustu rit Marx eru Kommúnistaávarpið (sem hann skrifaði ásamt Friedrich Engels) og Auðmagnið .

Útfærslur á hugmyndafræði Marx hafa haft gríðarleg áhrif á stjórnmál, hagþróun og vísindi víða í heiminum. Samkvæmt bókinni Svartbók kommúnismans ( The Black Book of Communism ) eftir Stéphane Courtois eru fórnarlömb kommúnismans og sósíalismans á undanförnum 100 árum um 100 milljón í gegnum aftökur, hungursneyðar af mannavöldum, nauðungarvinnu og fjöldabrottvísanir.

Í ræðunni sinni varði Juncker heimspekilega arfleifð Karls Marx og sagði Marx vera „lærifaðir byltingar öreiganna og vinnandi fólks um allan heim“. Jafnframt sagði Juncker að hægt væri að leiðrétta óstöðugleika Evrópusambandsins með því að einblína meira á samfélagslega velferð og félagsleg réttindi í anda hugmyndafræði Karls Marx.

„Evrópusambandið er ekki gallað, heldur óstöðug smíði. Óstöðugt vegna þess að samfélagsvídd Evrópu er í lélegum tengslum við evrópska samþættingu,“ sagði Juncker.