David Cameron er staddur í Brussel á lokaráðstefnu sinni sem forsætisráðherra Bretlands á vegum Evrópusambandsins. Hyggst hann þar vara leiðtoga sambandsins við að þeir verði að læra af reynslu þjóðaratkvæðagreiðslunnar.

Kjósendur finna sig fjarlæga Brussel

Leiðtogar sambandsins vilja hefja formlegar viðræður sem allra fyrst, en Cameron hefur sagt að þær muni ekki hefjast fyrr en nýr formaður Íhaldsflokksins verður kosinn í haust. Hann hyggst ekki bjóða sig fram á ný. Er búist við því að hann muni vara leiðtogana við því að margir breskir kjósendur finna sig fjarlæga stjórnhöfum í Brussel sem haldi sífellt áfram að ýta á frekari samþættingu þvert á vilja kjósendanna.

Á miðvikudaginn verður Cameron svo beðinn að víkja af fundinum til að hinir 27 leiðtogarnir geti ráðið ráðum sínum um hvernig bregðast eigi við viðræðunum um úrsögnina og tryggja að þær haldi ekki áfram árum saman.

Merkel segir allt eða ekkert

Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hefur varað við því að Bretland geti ekki týnt út það sem þeir vilja þegar þeir hefja viðræður um útgönguna úr sambandinu, en helstu frammámenn úrsagnar hafa sagt að þeir vilji halda aðganginum að sameiginlegum markaði sambandsins áfram.

Sagði hún í ræðu á þýska þinginu að ekki sé hægt að slíta í sundur fjórfrelsið svokallaða á Evrópumarkaðnum, það er frjálst flæði fjármagns, vinnuafls, þjónustu og varnings.