Forsætisráðherrann Alexis Tsipras lét lánadrottna Grikklands heyra það í þrumuræðu í dag og sakar þá um að reyna að „niðurlægja“ grísku þjóðina. Evrópa býr sig nú undir mögulegt brotthvarf Grikkja úr evrópska myntsamstarfinu.

Tsipras hélt ræðuna í kjölfar þess að viðræður við lánadrottna frá Evrópu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sigldu í strand um helgina eftir einungis 45 mínútur, en hann segist engin áform hafa um að verða við kröfum um frekari niðurskurð til ellilífeyrisþega.

Grikki sárvantar neyðarlán til að borga 1,6 milljarða evra skuld sína við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn fyrir mánaðamót en þeir fá hins vegar ekki slíkt lán nema þeir lofi sársaukafullum niðurskurði. Vinstri maðurinn Tsipras náði hins vegar völdum ásamt flokki sínum Syriza með því að lofa því að ekki yrði skorið niður.

Deila Grikkja við Evrópu er farin að hafa veruleg áhrif á efnahaginn í álfunni og evrópskir hlutabréfamarkaðir hafa ekki verið lægri síðan í febrúar. Deilurnar hafa smitast um alla álfuna, en Tsipras vandar evrópskum stórveldum ekki kveðjurnar.

Reyna að niðurlægja heila þjóð

„Ég er sannfærður um að sagnfræðingar framtíðarinnar munu sjá að litla Grikkland, með sín litlu völd, er í dag að há bardaga við algert ofurefli. Ekki bara fyrir eigin hönd, heldur fyrir hönd fólksins í Evrópu,“ sagði Tsipras í sjónvarpaðri ræðu.

Tsipras bætti því við að lánadrottnar hefðu pólitíska hvata til að biðja um niðurskurð á ellilífeyri og skattahækkanir sem stinga mest þá fátæku, og að markmið þeirra væri „ekki bara að niðurlægja grísk stjórnvöld – það væri minnsta vandamálið – heldur að niðurlægja heila þjóð.“

Angela Merkel, Þýskalandskanslari, hefur margoft rætt við Tsipras í síma undanfarnar vikur og reynt að fá hann til að verða við kröfum Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Hann virðist þó ekki ætla að gefa þumlung eftir.