Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, sagðist í morgun hafa endurskoðað afstöðu sína til aðildar Íslands að Evrópusambandinu.

„Við göngum ekki inn í brennandi hús núna. Slökkvið fyrst eldana.“ Jón Baldvin var gestur Morgunvaktar á Rás 1.

„Hér talar maður sem var harvítugasti talsmaður þess að við eftir hrun gengjum í samfélag lýðræðisríkja, Evrópusambandið. Ég hef endurskoðað þá afstöðu. Einfaldlega vegna þess að þegar ég horfi á Evrópu, þá sé ég Evrópusamband sem er nánast í sjálfsmorðsleiðangri vegna þess að pólitíska forystan hefur algjörlega brugðist - og það er kreppa eftir kreppu eftir kreppu. Peningasamstarfið er byggt á röngum grunni og stenst ekki. Það mun ekki standast nýtt áhlaup.“

Jón Baldvin tjáði sig um fleira í viðtalinu. Hann segist ekki hafa trú á að Pírata muni vinna þann stórsigur í næstu kosningum sem kannanir sýni nú. Hann segir að ekki sé innistæða fyrir fylgi þeirra.