Skattlagning á lífeyrissjóðina kemur harðarst niður á þeim sem minna hafa á milli handanna en hinum. Þetta segir Þórey S. Þórðardóttir, framkvæmastjóri Landssambands lífeyrissjóða í samtali við Fréttablaðið. Hún bendir á að þeir sem hafi borgað í séreign og nýtt fullar heimildir þar sem sé yfirleitt hátekjufjólk, komi betur út úr skattinum heldur en þeir sem aðeins greiði samtryggingu.

Þórey segist ekki hafa heyrt um frekari hugmynd um skattlagningu á lífeyrissjóðina fyrir utan það sem hún hafi séð í Fréttablaðinu. Hún segir skattlagninguna skammsýna því með henni sé verið að nýta skattstofna framtíðarinnar. Í raun verið að ýta byrðinni á ynga fólkið og komandi kynslóðir, sérstaklega þar sem samsetning þjóðfélagsins sé að breytast. Nú þurfi 5,5 stöðugildi til að vinna fyrir hvern lífeyrisþega. Árið 2050 er áætlað að þau verði 2,5.

„Ég hef ekki heyrt um frekari hugmyndir um skattlagningu og ég hef fyrst og fremst séð hana á forsíðu Fréttablaðsins,“ segir hún. „Sem betur fer fannst mér eins og Steingrímur J. Sigfússon tæki ekki mjög vel í hugmyndina og ég er ekki viss um að hún sé efst í hans huga.“

Þá segir Þórey: „Mér finnst eins og þeir sem eru miðjumenn og telja sig vera félagshyggjufólk átti sig ekki á því að eignaskattur með þessum hætti kemur einmitt verst niður á þeim sem minna hafa á milli handanna,“ segir hún.

Þórey leggur ríka áherslu á að lífeyrissjóðirnir megi ekki fella niður innheimtanlegar kröfur.

„Þetta er tryggingakerfi, þannig að þótt til séu ýmis góð og verðug verkefni þá er hlutverk lífeyrissjóðanna að ávaxta fé sjóðfélaganna með það að markmiði að geta staðið undir greiðslu lífeyris,“ segir hún.