Brynjólfur Bjarnason, stjórnarformaður Icelandic Group (IG) og starfandi forstjóri félagsins, segir að ákveðið hafi verið að ráða Steinþór Baldursson, fyrrverandi forstjóra Vestiu, í ráðgjafarverkefni fyrir félagið á stjórnarfundi 1. febrúar. „Á stjórnarfundi í Icelandic Group þann 1. febrúar sl. var ákveðið að ráða Steinþór Baldursson í tímabundið ráðgjafarverkefni, sem einkum sneri að eignasölu félagsins. Mér sem stjórnarformanni og Finnboga Baldvinssyni, þáverandi forstjóra var falið að ganga frá ráðningunni. Finnbogi Baldvinsson var á þessum fundi og gerði ekki athugasemdir við málið,“ segir Brynjólfur.

Í viðtali Viðskiptablaðsins við Finnboga, sem birtist 10. febrúar, sagði Finnbogi að hann hefði ekki notið trausts stjórnarinnar og því hefði hann hætt störfum. Finnbogi sagði m.a. í viðtalinu að Steinþór hefði verið ráðinn ráðgjafi án samráðs við sig og það hefði verið meðal annarra þátta sem réðu því að hann hætti að lokum. „Þegar ég spurði hvað hann ætti að gera var mér tjáð að hann ætti að sjá um fjármál. Ég sagði að við hefðum fjármálastjóra og þegar ég spurði hvert væri þá hlutverk Steinþórs fékk ég svarið: Hann nýtur trausts eigandans, en ég tel það ekki hlutverk eiganda að ráða starfsfólk fyrir mig inn í fyrirtækið,“ sagði Finnbogi í viðtali við Viðskiptablaðið.