Eyþór Björnsson, fiskistofustjóri, segir í samtali við Morgunblaðið að það hafi ekki komið honum og starfsmönnum Fiskistofu á óvart að Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegsráðherra, gæfi út að stofnunin flytti ekki til Akureyrar á þessu ári. Hins vegar hafi það komið honum í opna skjöldu og verulega á óvart að ráðherrann hygðist ekki leggja kapp á að koma frumvarpinu um flutninginn í gegn á yfirstandandi þingi.

Eyþór segir að sér lítist illa á að ekki sé stefnt á að koma frumvarpinu í gegn á þessu þingi. Ástæðan sé sú að stofnunin þoli ekki þá óvissu sem upp er komin lengur. Annað hvort þurfi að hætta við flutningana eða taka skrefið og klára það að taka ákvörðun.

„Við erum búin að vera í heljargreipum óvissunnar frá því í júní í fyrra. Við höfum ekki getað ráðið í stöður sem hafa losnað og verið í endalausum reddingum, þegar fólk hefur hætt, til þess að setja undir lekana og bjarga okkur tímabundið, af því við höfum alltaf verið að bíða eftir niðurstöðu,“ segir Eyþór.