Bandaríski sjóðsstjórinn Steve Eisman, sem var einn af þeim sem spáðu fyrir um undirmálslánakrísuna í Bandaríkjunum á árunum 2007 til 2008, segir fjármálakerfi heimsins vera öruggara nú, en það hefur verið áratugum saman.

Eisman var einn af söguhetjum kvikmyndarinnar The Big Short, þar sem Steve Carrel fór með hlutverk hans en kvikmyndin er byggð á samnefndri bók eftir Michael Lewis. Segir hann að þær reglugerðir sem hafi verið innleiddar frá því að fjármálakrísan reið yfir eigi að geta komið í veg fyrir að álíka kerfislæg vandamál geti komið upp aftur.

„Heimurinn í dag er gjörólíkur því sem hann var á árunum fyrir fjármálakrísuna. Í fyrsta sinn á mínum starfsferli, sem spannar yfir 30 ár, lít ég svo á að fjármálakerfið sé öruggt," sagði Eisman í viðtali við Financial Times í tilefni af því að 10 ár eru liðin frá því að undmálslánakrísan hófst. „Fjármálakerfið starfar nú undir íþyngjandi reglugerðum og er auk þess undir nánu eftirliti, sem ég tel vera það rétta í stöðunni."

Eftir að Donald Trump var kosinn forseti Bandaríkjanna, hóf Eisman að kaupa skuldabréf bandarískra banka. Hann er sannfærður um að bréfin muni skila góðri ávöxtun vegna aukins vaxtamunar og lægri kröfu um eiginfjárhlutfall.

Þrátt fyrir að vera almennt bjartsýn á stöðu alþjóðafjármálakerfisins segir hann að evrópsk fjármálafyrirtæki gætu orðið að vandamáli í náinni framtíð. „Það eru ekki allir bankar heimsins öruggir. Stjórnvöld í Evrópu fóru ekki að fordæmi Bandaríkjanna um að láta bankanna taka skellinn strax. Það voru klárlega mistök," sagði Eisman.

Eisman varð þekktur sem sjóðstjóri hjá FrontPoint Partners sem var deild innan bandaríska fjárfestingabankans Morgan Stanley. Hann tók stóra skortstöðu gegn undirmálsfasteignalánum og skilaði vogunarsjóð sínum ávöxtun upp á milljarð dollara.

„Fólk er sífellt að koma upp að mér og spyrja mig hver næsta „stóra skortstaða" sé. Í sannleika sagt þá hef hvorki svarið og vil ekki hafa svarið við þeirri spurningu. Ég starfaði í fjármálageiranum þegar krísan reið yfir og vil ekki sjá neitt í líkingu við þetta aftur."

Bætti fyrrum vogunarsjóðsstjórin því við að töluvert minni líkur séu á því að vandamál breiðist yfir fjármálakerfið nú en á árunum fyrir 2008. Jafnvel í geirum þar sem vandamál hafa verið til staðar eins í undirmálsbílalánum, sem eru bílalán sem eru veitt til lántakenda með lélegt lánshæfismat.

„Það er einfaldlega ekki nægjanlega mikil skuldsetning í fjármálakerfinu nú til að skapa kerfislæg vandamál eins og áttu sér stað fyrir áratug síðan. Raunveruleikinn er sá að kerfið í dag er mun öruggara og enginn kerfislæg vandamál eru til staðar," sagði Eisman að lokum