Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, segir dóma Hæstaréttar frá því í gær staðfesta það að rétt hafi verið að bregðast við þeim dómum sem fyrir lágu, um gengistryggingu lána í krónum, með lagasetningu.

Unnið sé nú eftir þeim lögum í úrvinnslu mála einstaklinga.

Varðandi þá niðurstöðu dóma Hæstaréttar, að gengistryggð lán fyrirtækja og almennt allra lögaðila séu einnig undir í þessum efnum, segir Árni Páll að það kunni að hafa áhrif á fjármálakerfið. „Það hefur vitaskuld verið kannað hver áhrifin verða af niðurfærslu allra gengistryggðra lána, þar með talinna fyrirtækja. Niðurstaðan var sú að fjármálakerfið þoli þær aðgerðir," sagði Árni Páll í samtali við Viðskiptablaðið.

Í fréttatilkynningu frá Frjálsa fjárfestingabankanum vegna þessara dóma, sem send var út fyrir skömmu, segir að niðurstaða Hæstaréttar sé mun víðtækari en lög sem sett voru á Alþingi í desember sl., en samkvæmt þeim var einungis skylt að endurreikna gengistryggð vaxtabótahæf íbúðalán til einstaklinga. „Niðurstaða Hæstaréttar tekur hins vegar til allra „gengistryggðra“ lána bankans óháð því hver lántakandinn var eða tilgangur lántökunnar.“