Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB er afar ósátt við áform og vinnubrögð tengd flutning Fiskistofu. Þetta kom fram í útvarpsþættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Elín segir að ekkert samráð hafi verið haft við starfsfólk stofnunarinnar þegar ákvörðun um flutning var tekin og telur hún slík vinnubrögð vera gamaldags.

„Mér finnst ekki boðlegt að bjóða starfsfólki upp á svona framkomu,„ segir Elín. Hún segir að starfsfólkið sitji eftir með fleiri spurningar en svör og efast um að margir muni rífa fjölskyldur sínar upp með rótum og flytja þær landshorna á milli.

Ætti ekki að koma á óvart

Þóroddur Bjarnason stjórnarformaður Byggðastofnunar, sem einnig var í þættinum, segir málið endurspegla vilja ríkisstjórnarflokkana til að byggja upp fleiri sterka byggðakjarna en bara á höfuðborgarsvæðinu. Hann segir að flutningurinn ætti ekki að koma svo á óvart enda stefna ríkisstjórna um langt skeið að flytja starfsemi opinberra frá höfuðborgarsvæðinu.

Þóroddur telur áformin vera lyftistöng fyrir Akureyri og nágrenni. Hann tók þó fram að það kæmi sér ekki á óvart að þorri starfsmanna ætlaði sér ekki að flytja á milli landshorna, enda væri algengara að fólk skipti um störf til að vera nær heimili heldur en að færa heimilið nær starfinu.