*

þriðjudagur, 13. apríl 2021
Frjáls verslun 28. desember 2020 15:01

Segir fólk sjálft eigið uppáhald

„Uppáhaldsviðfangsefni fólks er það sjálft,“ segir Patrick Fagan fyrrum yfirsálfræðingur hjá Cambridge Analytica.

Júlíus Þór Halldórsson
Patrick Fagan segir sumar fullyrðingar um starfshætti ráðgjafafyrirtækisins hafa verið rangar.
Aðsend mynd

Patrick Fagan atferlishagfræðingur segir fréttaumfjöllun um starfshætti ráðgjafafyrirtækisins Cambridge Analytica hafa verið nokkra einföldun á málinu, þótt grundvallarhugmyndin hafi vissulega byggt á því að greina fólk í sundur og sérsníða auglýsingar að því eftir persónuleika. Fagan vann sjálfur sem yfirsálfræðingur hjá fyrirtækinu um tíma.

„Uppáhaldsviðfangsefni fólks er það sjálft. Léttar persónuleikakannanir sem líkja þátttakanda við tiltekna persónu úr vinsælli sjónvarpsþáttaröð eða gefa á annan hátt hnyttnar niðurstöður sem lýsa eiga innri manni viðkomandi eru því afar vinsælar.“

Fagan segir Cambridge Analytica vissulega hafa verið fyrirtæki sem hannaði persónuleikapróf, sem varð afar vinsælt á Facebook, og hafi síðan gert sér mat úr gögnum sem söfnuðust þaðan.

Hann tekur hins vegar skýrt fram að gögnin og aðferðin hafi ekki verið notuð á jafn víðtækan hátt og haldið hafi verið fram í fjölmiðlum, meðal annars hafi hún ekki verið notuð í kosningabaráttu Donalds Trump, fráfarandi Bandaríkjaforseta. Þrátt fyrir það bannaði Facebook persónuleikapróf á síðasta ári í kjölfar umræðu um málið.

Ljúft fólk sækir í sætan mat
Fagan telur þó ljóst að sambærilegar aðferðir við markaðssetningu séu komnar til að vera, og verði notaðar í auknum mæli þegar fram líða stundir. „Algjörlega. Það er vel hægt að gera þetta án þess að fá fólk til að taka persónuleikapróf. Það er hægt að fá góða hugmynd um persónuleika fólks út frá ólíklegustu hlutum,“ segir hann og tekur dæmi af rannsókn sem leiddi í ljós að sólgni fólks í beiskan mat segi til um viðkunnanleika þess, eða öllu heldur skort á honum.

„Fólk sem er hrifið af dökku súkkulaði og gini er almennt óbilgjarnt, kaldlynt og hefur mikið keppnisskap. Ljúft fólk á hinn bóginn sækir í sætan mat. Eflaust kemur það sumum lítið á óvart, en það er afar áhugavert að fá það staðfest svona svart á hvítu.“

Það er því ekki erfitt að sjá hvernig mála má nokkuð nákvæma mynd af fólki út frá því hvaða vefsíður það heimsækir, hvaða snjallforrit það notar, hvaða kvikmyndum það er hrifið af, hvaða tónlist það hlustar á og þar fram eftir götunum. „Það gefur ansi góða mynd af hugsunarhætti viðkomandi og heimsmynd. Sú mynd er síðan notuð til að sérsníða að hverjum og einum skilaboð til að hámarka áhrif þeirra.“

Nánar er rætt við Fagan í tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér.