Jóhanna Sigurðardóttir getur ekki nefnt dæmi um eitthvað sem ekki hefur heppnast hjá núverandi ríkisstjórn vegna þess að stjórnarandstaðan hefur skemmt fyrir, að sögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Framsóknarflokksins. Hann sagði um vantrauststillögu Þórs Saari á Alþingi í dag að þeir sem styðji tillögu hans sem eingöngu að tjá skoðun sína á ríkisstjórninni.

Hann sagði fólk hafa verið tilbúið til að gefa ríkisstjórninni töluvert svigrúm þegar hún tók við á vordögum 2009 enda tækifærin fjölmörg. Hins vegar leit ríkisstjórnin á efnahagshrunið sem pólitískt tækifæri til að koma málum sínum á framfæri. Hann sagði sóknarfærin ekki hafa verið nýtt og tækifærum kastað á glæ.

„Margt hefði getað unnið með okkur. Í stað þss að nýta kosti sjálfstæðs gjaldmiðils þá var ráðist gegn öllum raunhæfum hugmyndum um raunhæfa uppbyggingu. Afleiðingarnar urðu þær að þúsundir starfa fluttust úr landi,“ sagði Sigmundur Davíð og vísaði á bug þeim fullyrðingum forsætisráðherra að ríkissjóður standi vel; skuldir ríkisins hafi ekki lækkað heldur þvert á móti hækkað ár frá ári; hagvöxtur undir væntingum og enn dragi úr fjárfestingu.

„Það er afleiðing af stefnu þessarar ríkisstjórnar,“ sagði Sigmundur Davíð.