Forseti Alþýðusambands Íslands ætti að vinna að launajöfnuði með því að taka á ofurlaunum stjórnenda þeirra fyrirtækja sem lífeyrissjóðir, sem margir tengjast ASÍ, eiga eignarhlut í. Þetta kemur fram í aðsendri grein Þorsteins Sæmundssonar, alþingismanns Framsóknarflokksins, í Morgunblaðinu í dag. Hann segir jafnramt að það dugi ekki að forseti ASÍ sitji báðum megin borðsins þegar hagsmunir eiga í hlut.

Nýverið lýsti Gylfi Arnbjörnsson þeirri skoðun sinni í fjölmiðlum að taka beri launaskrið forstjóra alvarlega og sagði að í næstu kjarasamningum yrðu launahækkanir síðasta árs hafðar í huga við mótun kröfugerðar.

Þorsteinn segir í grein sinni að Gylfi beini spjótum sínum í ranga átt. Hann segir að íslenskir lífeyrissjóðir, sem margir tengist ASÍ, eigi um 38% hlut í öllum fyrirtækjum sem eru á markaði á Íslandi. Í krafti eignarhaldsins geti lífeyrissjóðirnir haft áhrif á rekstur fyrirtækjanna og þar með laun æðstu stjórnenda . Því ætti Gylfi og aðrir menn sem honum tengjast og sitja í stjórnum lífeyrissjóða að beita sér á þeim vettvangi fyrir raunverulegum launajöfnuði.

Í lok greinarinnar segir Þorsteinn: „Forseti ASÍ hefur kannski ekki áttað sig á að með háværri gagnrýni sinni vegna launaskriðsins er hann í raun að beina spjótum að spegilmynd sinni handan borðsins.“