Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir það ekki rétt sem kom fram í máli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra í gær að nýja stjórnin hefði afgreitt 24 til 25 lagafrumvörp á Alþingi, sem nú væru í höndum þingsins.

Birgir segir að ummæli Jóhönnu hafi komið sér nokkuð á óvart því hann hafi í störfum Alþingis að undanförnu ekki orðið allan þennan fjölda frumvarpa frá ríkisstjórninni.

„Þvert á móti hefur verið til þess tekið hve greiða leið þingmannafrumvörp eiga inn á dagskrá þingsins, en venjulega njóta stjórnarfrumvörp forgangs í því sambandi,“ segir Birgir í athugasemdum við ummæli forsætisráðherra.

Birgir segir að þau þingmál sem lögð hafa verið  fram á Alþingi af hálfu ríkisstjórnarinnar séu 9 en ekki 24-25.

„Þess ber að geta að flest þessara mála hafa fengið fremur hraða afgreiðslu frá því þau komu fram enda ekki mikil ágreiningsmál,“ segir Birgir.

„Eftir því sem mér skilst gengur vinna við þau almennt vel í nefndum þingsins. Raunar má geta þess í framhjáhlaupi að meirihluti þessara mála var undirbúinn að verulegu leyti eða jafnvel fullkláraður í tíð fyrri ríkisstjórnar.“

Þá segir Birgir að eftir standi spurningin um þau 15-16 stjórnarfrumvörp, sem forsætisráðherrann segir að ríkisstjórnin hafi afgreitt til þingsins, en ekki hafa verið lögð þar fram.

„Hvaða mál eru þetta? Hvar eru þau á vegi stödd? Hvenær er von á þeim inn í þingið? Hefur ríkisstjórnin hugsanlega verið of fljót á sér að tilkynna um afgreiðslu einhverra þeirra og tekið þau aftur til frekari vinnslu? Liggja þau hugsanlega óafgreidd hjá þingflokkum stjórnarflokkanna?,“ spyr Birgir í athugasemdum sínum.