Ákæruvaldið lauk málflutningi fyrir rétti í máli sínu gegn stjórnendum bandaríska fyrirtækisins Enrons með því að ráðast harkalega að heilindum þeirra. Saksóknarinn sagði að stjórnendur Enron hefðu vitandi vits beitt blekkingum og kerfisbundnum ósannindum. Báðir forstjórar fyrirtækisins halda fast við staðhæfingar sínar um sakleysi.

Hinir tveir ákærðu, Ken Lay og Jeff Skilling, sem stýrðu félaginu sem forstjórar auk þess að byggja upp félagið, hafa að sögn saksóknarans Kathryn Ruemmler orðið uppvísir að endalausri röð bókhaldsblekkinga, villandi upplýsingagjafar og hálfsannleika.

Lay og Skilling gerðu allt þetta til að halda uppi gengi bréfa Enron, sagði Ruemmler í lokaræðu sinni í þessu stærsta hneykslismáli bandarískrar viðskiptasögu.

"Þeir höfðu val. Þeir hefðu getað stoppað við og sagt rétt frá fjárhagsstöðu Enron. Þeir gátu líka logið og leynt vandamálunum. Þeir völdu lygina," sagði Ruemmler sem lauk ræðu sinni með eftirfarandi orðum. "Það er ekkert athugavert við það að verða ríkur. En það má ekki gerast með því að hygla sjálfum sér og svindla."

Orkufyrirtækið Enron hrundi árið 2001 þegar kom í ljós að skuldir þess voru vanmetnar og tekjurnar ofmetnar. Þúsundir manna misstu vinnu sína og eftirlaunaréttindi og hluthafar töpuðu öllu sínu.

Í framhaldi þess voru þeir Lay og Skilling ákærðir fyrir að hafa leynt og logið til um fjárhagsstöðu félagsins. Verði þeir fundnir sekir geta þeir átt yfir höfði sér allt að 30 ára fangelsisdóm. Vörnin lýkur málflutningi sínum síðar í vikunni.

Dómarinn í málinu, Sam Lake, sagði við kviðdómendur áður en Ruemmler hélt lokaræðu sína að þeir ættu að vega og meta vitnisburð vitna sem hefðu játað sekt sína og í tengslum við það gert samning við ákæruvaldið um vægari refsingu en ella "mjög varlega". Hann lagði hins vegar áherslu á að þessir samningar væru "löglegir og við hæfi". "Hlutverk ykkar sem kviðdómara er að dæma um staðreyndir," sagði hann þegar hann ávarpaði kviðdóminn, sem er skipaður átta konum og fjórum körlum.

Helsta vörn Lays og Skillings felst í því að ákæruvaldið hafi beitt fyrrum undirmenn þeirra hjá Enron óeðlilegum þrýstingi til að játa á sig glæpi sem þeir hafi aldrei framið og ljúga um yfirmenn sína, til að komast hjá því að vera sjálfir ákærðir.