Nýr forstjóri Landspítalans mun taka til starfa 1. október, segir Kristján Þ. Júlíusson heilbrigðisráðherra. Hann segir að nafn nýja forstjórans verði kynnt eftir helgi.

Björn Zoega fráfarandi forstjóri tilkynnti í dag að hann ætli að hætta störfum. Hann sagði í tilkynningu að auka þyrfti rekstrarfé til spítalans og að umgjörð um framtíðarskipan hans væri undir. „Mér er ljóst að hvað Landspítalann varðar er nauðsynleg uppbygging ekki í augsýn,“ segir Björn í yfirlýsingunni.

Aðspurður segir Kristján Þór þetta þó ekki þýða að Björn sé að flýja af hólmi. „Nei, alls ekki. Björn Zoega er ekki vanur að flýja af hólmi. Ég skynja það ekki þannig,“ segir Kristján. Hann segir jafnframt að allt starf Björns hafi einkennst af dugnaði, ósérhlífni og fagmennsku.

Kristján Þór segir að hann hafi verið búinn að ræða fjárlög næsta árs og fjármögnun Landspítalans við Björn. Það sé eðlilegt. „Björn hefur fengið kynningu á helstu áherslum í þessu eins og forstjórar annarra ríkisstofnana,“ segir Kristján.

Kristján segir að það blasi við út frá áherslum Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins fyrir kosningar og stjórnarsáttmála flokkanna merki um endurbyggingu húsnæðis Landspítalans muni ekki sjást í fjárlögum. Aftur á móti standi til að efla heilbrigðisþjónustuna. „Ég lít svo á að við séum að reyna að spyrna við fótum og snúa þessu skipi á rétta braut. Ég tel að það verði ágætlega gert,“ segir Kristján.

Á hinn bóginn sé meginmarkmiðið í ríkisfjármálum að gera ríkissjóð hallalausan. „Þegar eins og hálfs prósents hagræðingarkrafa beinist að öllum málaflokkum í ríkisstarfseminni þá er heilbrigðiskerfið ekkert undanskilið. Það kemur þá í ljós með hvaða hætti við reynum að mæta þeirri hagræðingarkröfu í fjárlagafrumvarpinu sem verður lagt fram í næstu viku,“ segir Kristján.