„Forystumenn stéttarfélaganna virðast komast upp með að svara ekki spurningum um hvað felist í launakröfum og villa um fyrir almenningi um laun og tekjur félagsmanna. Aðgerðir þeirra hafa áhrif langt út fyrir eigin raðir.“

Þetta sagði Björgólfur Jóhannsson, formaður Samtaka atvinnulífsins, í opnunarerindi sínu á ársfundi samtakanna sem nú stendur yfir í Hörpu. Hann gerði þar kröfur stéttarfélaga í yfirstandandi kjaradeilum að umtalsefni og vitnaði þar í eftirfarandi æviminningar Benjamíns H.J. Eiríkssonar sem út komu 1996:

„Kaupgjaldssamningar á Íslandi hafa allt fram á síðustu ár minnt mig á smásögu eftir Ignazio Silone. Fátækir bændur og landeigandi skiptu með sér vatni úr fjallalæk, sem féll um hið þurra land þeirra. Deilunni um skiptingu vatnsins lauk með því, að hvor aðili skildi fá tvo þriðju hluta vatnsins! Um þetta var samið. Allir voru ánægðir.“

Ekkert rými fyrir laumufarþega

Björgólfur sagði atvinnurekendur standa frammi fyrir kröfum um 30 til 50 prósent kauphækkanir einstakra verkalýðsfélaga á sama tíma og svigrúm væri fyrir einn tíunda hluta af kröfunum.

„Forysta verkalýðsfélaganna stefnir félagsmönnum sínum til verkfalla og telur að þótt kröfurnar fáist samþykktar þá muni það ekki hafa áhrif út fyrir eigin raðir. Kannski telja einhverjir að þetta geti gengið upp hjá fámennum hópum. Að það skiptu engu máli fyrir aðra þótt laun eins hóps hækki hressilega,“ sagði Björgólfur en bætti því við að ekkert rými væri fyrir laumufarþega sem gætu rifið sig lausa frá samfélaginu.

Enginn sigurvegari - allir tapa

Björgólfur sagði að það hlyti að vera sameiginlegt markmið þjóðarinnar að hér ríkti stöðugleiki, að atvinnulífið væri öflugt, skattbyrði hófleg og utanríkisviðskipti í jafnvægi auk þess að kaupmáttur færi vaxandi.

„Það stangast á við öll þessi markmið að efna til verkfalla til að ná fram kröfum um launabreytingar langt umfram það sem hægt er að standa undir. Sama hvernig fer, þá verður engin sigurvegari í þeim átökum. Allir tapa,“ sagði Björgólfur.

Sagði hann leiðina til lífskjara fyrir hvern og einn vera hina sömu og fyrir alla aðra. Engin töfralausn væri til, líkt og sú sem landeigandinn og bændurnir fundu í sögunni að framan.