„Það að nota háan toll og virðisaukaskatt sem afsökun fyrir dræmri jólasölu finnst mér fráleitt. Það er ekki eins og að netverslun hafi birst skyndilega á Íslandi á síðustu mánuðum,“ segir Sigurður Pálmi Sigurbjörnsson, kaupmaður í íþróttavöruversluninni Sports Direct.

Hann gagnrýnir orð Andrésar Magnússonar, framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu, sem sagði í samtali við VB.is fyrr í dag skrif Sigurðar í Fréttablaðinu í dag fyrir neðan allar hellur. Í greininni gagnrýndi Sigurður kollega sína í greininni fyrir að reyna að fá hið opinbera til að auka samkeppnishæfni greinarinnar og lækka virðisaukaskatt og vörugjöld. Þau ein skýri ekki hátt verð hér og ástæðu þess að verslun hafi að stórum hluta færst til útlanda, í gegnum netverslanir og innkaupaferðir útlendinga erlendis. Þá sagði Sigurður innkaupaverð hér hátt vegna smæðar og fjarlægðar við meginlandið og hafi verslunargeirinn auk þess offjárfest gríðarlega í verslunarhúsnæði. Því til viðbótar sé hæsta leiguverð í Evrópu tekið beint úr vasa neytenda. Sigurður sagði m.ö.o. fólk í verslanarekstri þurfa að líta í eigin barm. VB Sjónvarp ræddi jafnframt við Sigurð fyrr í dag.

„Fyrir neðan allar hellur“

„Þessi alhæfing hjá honum að menn kunni ekki til verka í íslenskri verslun og innkaupin óhagkvæm er fyrir neðan allar hellur,“ sagði Andrés í samtali við VB.is.

Þessu vísar Sigurður á bug í tölvuskeyti til VB.is.

Sigurður skrifar:

„Ég sagði hinsvegar að vegna smæðar og fjarlægðar frá meginlandinu verði innkaup óhagkvæm. Það er ekki vegna þess að menn kunni ekki til verka, heldur vegna legu landsins og mannfjölda (Eða smæðar réttara sagt). Það er rétt hjá Andrési að það er tvítollað inn til landsins og virðisaukaskattur er alltof hár. En að fólk leiti frekar til netverslana útaf of háum tollum er fráleitt. Ef það er verslað af netinu frá útlöndum þá eru þær vörur líka tollaðar inn í landið og greiða þarf af þeim 25,5% virðisaukaskatt, eins og sjá má í dæminu sem ég setti í grein mína. [...] Íslensk verslun ætti að berjast gegn háum sköttum og tollum á öðrum forsendum.  Eins og ég tel upp í greininni þá hefur lítið breyst frá 2008 hvað varðar tolla og virðisaukaskatt. Ef það er eitthvað sem hefur valdið minni veltu í smásöluverslun er það minnkandi kaupmáttur fólks,“ skrifar hann.