Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs harmar áform um skattahækkanir sem ríkisstjórnin boðaði í morgun.

„Vissulega ber að fagna viðleitni ríkisstjórnarinnar til að hagræða í rekstri sínum, en engu að síður er framsetning þessara sparnaðaraðgerða villandi,“ segir Finnur í samtali við Viðskiptablaðið.

„Í raun er ekki um eiginlegan sparnað að ræða, heldur einungis áform um að auka ríkisútgjöld minna en upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlögum næsta árs. Ef á endanum þarf að grípa til skattahækkana hlýtur það að koma í kjölfar raunverulegs niðurskurðar af útgjaldahlið ríkissjóðs Því miður virðist það ekki eiga við núna.“

Finnur segir að skattahækkanir nú dragi úr ráðstöfunartekjum heimilanna, sem tæpast er á bætandi eftir verulega búsifjar undanfarnar vikur í formi kostnaðarhækkana og aukinnar greiðslubyrði af lánum. Í þeim efnum verður að ítreka að nær væri að hið opinbera tæki til í sínum útgjöldum áður en skattar yrðu hækkaðir.

Aðspurður um heimild sveitafélaga til að hækka útsvar sitt minnir Finnur á að útgjöld bæði ríkis og sveitafélaga hafi hækkað í skjóli aukinna tekna síðustu árin.

„Sveitafélögin hafa ekki sýnt ráðdeild í rekstri á undanförnum árum og hækkun útsvars verður ekki til að auka á þrýsting um aðhald í rekstri.  Það er því miður líklegt að flest sveitarfélög muni nýta þessa heimild,“ segir Finnur.

Í byrjun mánaðarins ítrekaði Viðskiptaráð þá skoðun sína að forðast bæri allar skattahækkanir.

„Fjárhagsstaða einstaklinga og heimila er nú þegar í molum og ekki á það bætandi með hækkun skatta,“ segir í skoðun Viðskiptaráðs frá 2. desember s.l.

„Hætt er við að skattahækkanir leiði til enn frekari samdráttar sem myndi þrengja skattstofna og mögulega draga úr heildarskatttekjum á endanum. Í ljósi þess er skynsamlegt að forðast skattahækkanir eftir fremsta megni.“