„Við lögðum allt undir og gerum okkur grein fyrir því að ef við stöndum ekki við þetta þá mun flokkurinn eiga mjög erfitt uppdráttar í sveitastjórnarkosningunum á næsta ári,“ segir Vigdís Hauksdóttir. Hún er þingmaður Framsóknarflokksins og formaður fjárlaganefndar Alþingis. Vigdís var í ítarlegu viðtali í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar ræðir hún m.a. um niðurskurð í komandi fjárlögum, hatrammar árásir í fjölmiðlum og fleira.

Frambjóðendur Framsóknarflokksins lofuðu öllu fögru í kosningabaráttunni í fyrir þingkosningar í vor. Þar á meðal var stofnun leiðréttingarsjóðs fyrir heimili landsins, sem erlendu matsfyrirtækin hafa reyndar mælt gegn. Er Vigdís jafn viss í sinni sök og í vor að flokkurinn geti staðið við loforðin?

„Við höfum svo mikla sannfærðingu fyrir því að þetta sé hægt að við hvikum ekki frá því. Úrslit þessara mála verða kynnt í nóvember í síðasta lagi. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður flokksins, hefur ítrekað það oft í viðtölum að þetta verður gert. Skuldaniðurfellingin á ekki að bitna á ríkissjóði eins og matsfyrirtækin vilja meina heldur koma fram þegar samið verður við þrotabú gömlu bankanna. Það er alveg klárt. Svigrúmið þar verður til þess að þetta verður hægt. Ég treysti forsætisráðherra best af öllum til að uppfylla þetta og ber fullt traust til hans,“ segir Vigdís.

Sá hluti viðtalsins sem hér fór rataði ekki á síður Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .