Framtíð franska flugfélagsins Air France er í húfi í deilu félagsins við flugmenn. Þetta er mat Alain Vidalies, samgönguráðherra Frakklands. Fjallað er um málið á vef BBC.

Flugmenn Air France lögðu niður störf sl. mánudag og mun verkfallið standa til næsta föstudags hið minnsta. Þó kemur til greina að framlengja verkfallið ef samningar við flugfélagið nást ekki á næstu dögum.

Flugmennirnir eru að mótmæla nýrri áætlun flugfélagsins sem gengur út á að auka umsvif dótturfélags síns, lággjaldaflugfélagsins Transavia, með tilheyrandi kjaraskerðingu fyrir flugmenn.

Áætlað er að verkfallið kosti Air France um 15 milljónir evra, jafnvirði 2,3 milljarða króna, á dag.