Franska þingið kaus í gær um eftirlaunafrumvarp Nicolas Sarkozy, forseta Frakklands, sem felur í sér að hækka eftirlaunaaldurinn í Frakklandi úr 60 árum í 62 ár.

Mikið hefur verið fjallað um málið og mikil mótmæli brutust út eftir að frumvarpið var lagt fram. Þannig lögðust almenningssamgöngur nánast af í nokkra daga vegna verkfalla en stærstu verkalýðsfélög Frakklands hafa sett sig upp á móti frumvarpinu.

Lengst hafa námsmenn þó gengið í mótmælunum. Hin svokallaða búsáhaldabylting hér á landi í upphafi árs 2009 er barnaleikur miðað við það sem á undan er gengið í mótmælum franskra stúdenta undanfarnar vikur.

Það hefur vakið athygli að mótmæli franskra námsmanna koma ekki til vegna hlýs hugar námsmanna til eldri kynslóða, heldur óttast þeir aukið atvinnuleysi meðal ungs fólks, sem nú þegar mælist um 20%, fari svo að eftirlaunaaldur verði færður fram um tvö ár. Þannig hafa aðgerðir námsmanna komið verkalýðsforingjum, sem í fyrstu hvöttu til mótmæla, í opna skjöldu.

Skaðleg lög um vinnumarkað

François Melese, hagfræðiprófessor við Naval háskólann í Monterey í Kaliforníu, fjallaði um eftirlaunafrumvarpið á vef Mises Institude í vikunni. Melese segir að áhyggjur námsmanna séu þó skiljanlegar. Ef störfum fjölgar ekki í Frakklandi verður erfiðara fyrir þá að fá vinnu ef eldra fólkið dvelur lengur á vinnumarkaði.

Hins vegar bendir Melese á að skortur sé á því að útskýra hvernig vinnumarkaðurinn virkar, of margir haldi að fjöldi starfa standi óbreyttur og aukið framboð vinnuafls skapi aukið atvinnuleysi.

Melese segir rétt að benda á að eftirspurn starfa sé ekki bara háð framboði á vinnuafli heldur skapist störf vegna eftirspurnar á innlendum og utanaðkomandi þáttum. Þannig sé fjöldi starfa háður eftirspurn eftir innlendri framleiðslu í Frakklandi auk alþjóðlegrar eftirspurnar.

„Undirliggjandi ástæða fyrir miklu atvinnuleysi ungs fólks liggur frekar í skaðlegum lögum um vinnumarkað og takmörkuðum fjölda nýrra starfa," segir Melese og segir eftirlaunaaldurinn ekkert koma því við.

Ennfremur segir hann að í því ljósi ættu franskir námsmenn að fagna frumvarpinu þar sem óbein áhrif fleiri vinnandi manna muni til langs tíma leiða til aukinnar velferðar fyrir ungt fólk í Frakklandi.

Þungur baggi

Lífeyrisgreiðslur í Frakklandi eru, líkt og í flestum öðrum ríkjum á meginlandinu, að mestu greiddar úr ríkissjóði. Einkarekin lífeyriskerfi eru veik og eftirlaun því mikil byrði á skattgreiðendum.

Melese telur því að námsfólk ætti frekar að fagna eftirlaunafrumvarpinu. Með því komast þeir mögulega hjá því að greiða hærri skatta í framtíðinni en oft hefur verið sýnt fram á að innan fárra ára verða eftirlaunaþegar á meginlandi Evrópu fleiri en vinnandi menn. Þar er Frakkland engin undantekning.

Melese telur því að ungir Frakkar ættu frekar að berjast gegn flóknum reglum um réttindi starfsmanna sem gera það að verkum að franskir atvinnurekendur hika við að ráða ungt fólk í vinnu.

Sjá grein Francois Melese í heild sinni.