Frárennslismál frá hreinsistöð við Hótel Laxá eru í lagi, fullyrðir Edda Hrund Guðmundsdóttir Skagfield í fréttatilkynningu í kjölfar umfjöllunar Kastljóss í gærkvöldi um málefni hótelsins.

„Hótelið hefur ekki farið fram á neinar undanþágur vegna slíkra mála enda fjárfesti það í besta fáanlega búnaði á Íslandi til þess að uppfylla ýtrustu kröfur samkvæmt lögum," segir í tilkynningunni.

„Hótelið er búið hreinsistöð með þriggja þrepa hreinsun sem er með því besta sem þekkist á landinu. Það kom upp bilun í búnaðinum síðasta sumar sem ráðin var bót á en við hörmum að sjálfsögðu þessi bilun hafi komið upp.

Eftirlitsaðilar voru meðvitaðir um bilun stöðvarinnar og upplýstir um framgang lagfæringar. Hótel Laxá hefur það að markmiði að reka umhverfisvænt hótel í þessari miklu náttúruperlu sem Mývatnssveit er og berum við mikla virðingu fyrir náttúru hennar.

Því tökum við svona mál alvarlega og viljum við vera í farabroddi í umhverfis- og fráveitumálum í Mývatnssveit.“