Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir Viðreisn og Bjarta framtíð ekki hafa gert mistök í ríkistjórnarsamstarfinu með Sjálfstæðisflokki, þrátt fyrir að skoðanakannanir gefi til kynna að flokkarnir myndu ekki ná manni inn á þing ef kosið væri í dag. Þetta sagði Þorgerður í Vikulokunum á Rás eitt í morgun.

Viðreisn mælist með 4,7% fylgi samkvæmt síðustu könnun MMR en fékk 10,5% fylgi í síðustu Alþingiskosningum. Telur Þorgerður fylgistapið samkvæmt könnunum, skýrist mögulega af því að frjálslyndir kjósendur séu kröfuharðir og ekki endilega hliðhollir ákveðnum flokkum. Segir hún að frjálslyndir kjósendur vilji sjá ákveðnar breytingar og að mengi frjálslyndra sé mun stærra en birtist í skoðanakönnunum.

Bætti hún því við að Viðreisn og Björt framtíð hafi talað eindregið fyrir frjálslyndum viðhorfum.  „Frjálslyndir kjósendur eru kannski ekki mjög flokkshollir eins og kjósendur gömlu flokkana hafa verið í gegnum tíðina.“