Of fáir eru hér á landi sem reynslu af stofnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja í útlöndum annars vegar og hins vegar vantar reynslumikla fjárfesta sem geta stutt við nýsköpunarfyrirtækin, að mati Kjartans Ólafssonar, einn þriggja stofnenda bandaríska fyrirtækisins Basno. Hann vann áður hjá fjölmiðlarisanum Bertelsmann að loknu MBA-námi við Harvard Business School árið 2005.

Hann segir í samtali við Viðskiptablaðið margt klárt fólk á Íslandi, t.d. forritarar og hönnuðir og frumkvöðlar á heimsklassa. Hann nefnir sérstaklega sem dæmi Hjálmar Gíslason, stofnanda og framkvæmdastjóra DataMarket og segir hann í hópi allra bestu frumkvöðla Íslands. Þá nefnir hann helsta hönnuð Basno, Róbert Einarsson. Kjartan er sjálfur einn eigenda DataMarket og situr í stjórn fyrirtækisins og hefur því reynslu á báðum vígstöðvum.

„Ef ég horfi krítískt yfir sviðið þá er tvennt sem helst skortir á Íslandi. Annars vegar eru of fáir á Íslandi með reynslu af „startup business“ erlendis. Á stórum mörkuðum er umhverfið allt öðruvísi og flóknara en heima, þar sem þú ert alltaf einu símtali frá forstjóra sérhvers fyrirtækis,“ segir Kjartan.

„Hins vegar finnst mér skorta reynslumikla fjárfesta á sviði nýmiðlunar og netmála, fjárfesta sem geta stutt við nýsköpunarfyrirtækin, opnað dyr hjá erlendum fjárfestum og komið fyrirtækjum sínum í tengsl við strategísk tæknifyrirtæki erlendis. Þetta mun batna með tímanum,“ segir hann.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .