„Reiknistofa bankanna (RB) fagnar því að Samtök iðnaðarins (SI) hafa fengið staðfest hjá embætti Ríkisskattstjóra (RSK) að jafnræði ríkir milli fyrirtækja sem veita upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki." Þetta kemur fram í tilkynningu Friðriks Þórs Snorrasonar, forstjóra Reiknistofu bankanna.

Friðrik Þór er hér að vísa til þess þegar SI sendi frá sér tilkynningu, sem greint var frá á vef Viðskiptablaðsins 17. desember. Í henni kom fram að Ríkisskattstjóri myndi birta leiðbeiningar um meðhöndlun virðisaukaskatts á upplýsingatækniþjónustu fyrir fjármálafyrirtæki.  Í bréfi sem SI sendu Samkeppniseftirlitinu í síðasta mánuð kom fram sú skoðun að þar sem fjármálafyrirtækin væru eigendur að Reiknistofu bankanna stæðu önnur upplýsingatæknifyrirtæki höllum fæti í samkeppninni við hana. Þetta stafaði af því að fjármálafyrirtækin hefðu ekki skilgreint hvernig meðferð virðisaukaskatts af upplýsingatækni þjónustu skyldi háttað.

„Skýrar leiðbeiningar frá Ríkisskattstjóra (RSK) munu tryggja aukið jafnræði á íslenskum upplýsingatæknimarkaði. Þessi niðurstaða, sem fékkst eftir þrýsting og mikla vinnu Samtaka iðnaðarins (SI) og Samtaka upplýsingatæknifyrirtækja (SUT), er mikill sigur fyrir þau fjölmörgu fyrirtæki sem starfa á þessum markaði."

Í tilkynningu Friðriks Þórs, forstjóra RB, segir að þessi niðurstaða sé í samræmi við það sem Reiknistofan hafi ávallt haldið fram.

„RB nýtur engrar sérstöðu í skjóli laga um virðisaukaskatt og hluthafar félagsins hafa ekki nýtt RB til að komast hjá greiðslu virðisaukaskatts. Það er miður að forsvarsmenn SI hafi ítrekað og ranglega fullyrt opinberlega að RB njóti forskots á markaði í krafti laga um virðisaukaskatt. Þar sitja öll fyrirtæki í upplýsingatækni við sama borð og ánægjulegt að RSK muni gefa út almennar leiðbeiningar um meðferð virðisaukaskatts á kaupum fjármálafyrirtækja á tækniþjónustu.

Framtíðarsýn og stefna RB byggir á því að félagið starfar á jafnræðis- og samkeppnisgrundvelli. Við hlutafjárvæðingu RB árið 2011 var sjálfstæði félagsins sem þjónustufyrirtækis tryggt af eigendum þess. Aðgreiningin á milli fjármálafyrirtækja sem hluthafa annars vegar og sem viðskiptavina hins vegar var síðar styrkt enn frekar með sátt við Samkeppniseftirlitið sem gerð var árið 2012, þar sem fram kemur að fulltrúar eiganda í stjórn RB eru sérfræðingar sem hvorki starfa hjá fjármálafyrirtækjunum né sitja í stjórn þeirra.

RB hefur lagt sig fram við að eiga gott samstarf við Samkeppniseftirlitið við framkvæmd sáttarinnar og við RSK um framkvæmd laga um virðisaukaskatt. Þannig leitaði félagið t.a.m. eftir áliti RSK á því hvort formbreyting RB hefði áhrif á meðferð þess á virðisaukaskatti. RSK staðfesti að virðisaukaskattur legðist ekki á þjónustu sem veitt er fjármálafyrirtækjum teldist þjónustan eðlilegur og nauðsynlegur þáttur í starfsemi fjármálafyrirtækjanna og veitt í tengslum við fullnustu fjármálagjörninga. Skiptir þá engu hvort RB eða annar aðili veiti fjármálafyrirtækjum eða öðrum slíka þjónustu. Þetta hafa Samtök iðnaðarins nú fengið staðfest frá RSK."