Yngvi Örn Kristinsson, hagfræðingur Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að fullyrðingar um að bankar hér á landi stundi okurlánastarfsemi á íbúðalánamarkaði ekki eiga við rök að styðjast.

Yngvi er væntanlega að vísa í viðtal við Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóra í Kópavogi sem birtist í Morgunblaðinu í gær. „Vandamálið er að það er stunduð okurlánastarfsemi á Íslandi. Unga fólkið sem er að reyna að borga niður húsin sín er í vinnu hjá bönkunum og nær ekki að borga neitt nema vaxtahlutann, sagði Ármann í samtali við Morgunblaðið. „Ég er nú að tala frá hjartanu. Ég hef hugsað málið mikið. Vaxtamunurinn hér er meiri, eða hærri, en bara vextirnir í öðrum löndum.“

Í grein á vefsíðu SFF segir Yngi að það sé villandi villandi að bera saman vexti á fasteignalánum frá einu hagkerfi til annars án þess að taka tillit til þeirra grunnvaxta sem gilda í hvoru hagkerfi fyrir sig.

„Í dag standa viðskiptavinum banka og sparisjóða til boða óverðtryggð fasteignalán með vöxtum á bilinu 6,75-8% en vextirnir markast af veðsetningarhlutfalli og binditíma. Á sama tíma eru stýrivextir Seðlabanka Íslands 5,25%. Munurinn á milli áhættulausra grunnvaxta og vaxta á óverðtryggðum fasteignalánum er því á bilinu 1,25-2,75 prósent og fer munurinn eftir veðsetningarhlutfalli og binditíma.

Þegar litið er Norðurlandanna sést að munurinn á stýrivöxtum og vöxtum á fasteignalánum hér á landi sker sig ekki úr. Þrátt fyrir að stýrivextir í Svíþjóð séu nú neikvæðir (-0,1%) standa fasteignakaupendum til boða vextir á bilinu 2,1% – 3,3%. Vaxtabilið ræðst af binditímanum sem getur verið frá þremur mánuðum til tíu ára. Stýrivextir norska seðlabankans eru 1,25% en vextir á fasteignalánum eru á bilinu 2,9%-3,4% eftir binditíma. Í Danmörku standa kaupendum fasteigna til boða lán með óverðtryggða vexti á bilinu 1,1%3,1% eftir binditíma en stýrivextir seðlabankans eru 0,05%.

Þetta þýðir að álag banka á fasteignalán miðað við stýrivexti eða ríkisskuldabréfavexti við veitingu fasteignalána er hér sambærilegt við það sem gerist á Norðurlöndunum,“ segir m.a. í grein Yngva.