Davíð Lúther, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar Sahara, segir að flest bendi til þess að markaðssetning á samfélagsmiðlum muni koma til með að aukast í náinni framtíð og nefnir að gífurleg tækifæri séu til staðar til að koma sérsniðnum skilaboðum á framfæri.

Í viðtali við Viðskiptablaðið þann 13. september síðastliðinn sagði Hjalti Jónsson, framkvæmdastjóri Íslensku auglýsingastofunnar, að hann væri efins um rekstrargrundvöll þeirra fyrirtækja sem sérhæfa sig í markaðssetningu á samfélagsmiðlum.

„Ísland er auðvitað í grunninn lítill markaður. Það er ekki mikið pláss fyrir mikla sérhæfingu. Það sem við höfum séð á síðustu misserum er að það hafa verið stofnuð fyrirtæki sem veita sérstaklega ráðgjöf tengda samfélagsmiðlum. Það er eitthvað sem ég á eftir að sjá að sé til lengri tíma sjálfbært eitt og sér. Þetta er og verður hluti af vöruborði og þeirri þekkingu sem hefðbundnu stofurnar bjóða upp á. Markaðurinn hérna heima er það lítill að menn þurfa að vera með breitt vöruborð og mikla þekkingu á öllum sviðum til þess að plumma sig á markaðnum,“ er haft eftir Hjalta.

Yfir 90% tekna Sahara kemur frá stafrænu efni

Stafræna auglýsingastofan Sahara var stofnuð sem samfélagsmiðlafyrirtæki fyrir um tveimur árum. Um síðustu áramót sameinaðist framleiðslufyrirtækið Silent, sem stofnað var árið 2009, Sahara. Í dag starfa um 30 manns hjá stofunni. Starfsemin hefur stöðugt farið vaxandi og var hagnaður ársins 2017 sambærilegur hagnaði stærstu auglýsingastofanna sem best gekk. Skýringin er breyttar áherslur markaðarins og aukin áhersla birtingu markaðsefnis á samfélagsmiðlum á borð við Facebook, Instagram, YouTube og LinkedIn þar sem hægt er að sérsníða skilaboð að ákveðnum markhópum.

Eftirspurn í bíliðnnám jókst til muna

Davíð nefnir nýlegt dæmi um þann mikla árangur sem náðst hefur á sviði stafrænnar markaðssetningar en það er stóraukin eftirspurn nemenda eftir bíliðnnámi í Borgarholtsskóla.

„Fyrir fáeinum misserum voru ákveðnar iðngreinar í boði við það að leggjast af vegna lítillar eftirspurnar. Í kjölfar markaðsefnis í formi kynninga og auglýsinga sem birt var á samfélagsmiðlum hefur orðið sprenging í eftirspurn eftir skólavist."

Hann bætir við að þessi árangur hafi náðst sökum ótrúlega hás hlutfalls landsmanna sem er virkt á samfélagsmiðlum og nefnir að yngri kynslóðir séu vanari annarri nálgun í markaðssetningu heldur en þær eldri.

Rétt blanda góð

Davíð telur að rétt blanda mismunandi farvega sé góð hjá auglýsingastofum. „Að mati okkar hjá Sahara bendir flest til þess að áhersla atvinnulífsins á markaðsefni á samfélagsmiðlum muni halda áfram að aukast í náinni framtíð enda enn gríðarleg tækifæri til staðar þar fyrir fyrirtæki og stofnanir til að koma sérsniðnum skilaboðum sínum á framfæri við mismunandi markhópa. Hvort sú aukna áhersla muni koma niður á öðru birtingarformi til langtíma litið skal ósagt látið. Eins og áður segir er rétt blanda mismunandi farvega góð, spurningin verður bara alltaf um það hversu mikið hlutföllin breytist til langframa."