Páll Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, skrifar grein í Markaðinn á Fréttablaðinu í dag þar sem hann lýsir áhyggjum sínum af því hversu lítið gagnsæi sé í kringum afgreiðslu beiðna um undanþágur frá gjaldeyrishöftum. Bendir hann á að þær ákvarðanir sem um sé að ræða séu mikilvægar og geti haft veruleg áhrif á umsækjendur og íslenskt efnahagslíf, eins og nýleg dæmi sanni.

Páll segir að Seðlabankinn telji gagnsæi takmörkunum háð vegna þagnarskyldu gagnvart umsækjendum en bankinn hafi reynt að koma til móts við kröfu um aukið gagnsæi með birtingu upplýsinga um almenna framkvæmd undanþágubeiðna á heimasíðu sinni.

„Umsækjendum er engu að síður nokkur vandi á höndum við mat á því hvort jafnræðis sé gætt í ákvörðunum bankans. Einfalt væri að draga úr tortryggni, t.d. með því að bjóða upp á fljótvirka kæruleið eins og Viðskiptaráð hefur lagt til,“ segir Páll. Vísar hann þar til ábendinga Viðskiptaráðs til fjármálaráðherra um umbætur á stjórnsýsluháttum Seðlabankans sem það sendi frá sér í haust.

Hann segir að einnig mætti hugsa sé að óháðum aðila á vegum stjórnvalda væri falið að fara kerfisbundið yfir ákvarðanir er varði stærri hagsmuni og aðrar ákvarðanir valdar af handahófi til að leggja mat á hvort gætt væri jafnræðis í afgreiðslu undanþágubeiðna.