„Ég tel mikilvægara að auka ráðstöfunartekjur alla en að fara í niðurfellingu á skuldum sumra,“ segir lögfræðingurinn Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann segir í samtali við netritið Kjarnann í dag skuldir landsmanna sem undir eru í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem eiga að vinna á skuldavanda heimila landsins. Hann segir einkennilegt að allir fái skuldir sínar lækkaðar. „Eignin mín hefur til dæmis hækkað þrefalt meira en hún var þegar ég keypti 1999. Lánið hefur hækkað um einhverjar milljónir en eignin hefur margfaldast. Á ég síðan að fá niðurgreitt af þessum milljónum sem ég skulda úr sameiginlegum sjóðum landsmanna? Fyrir mér er þetta auðvitað galið,“ segir hann.

Brynjar segir ekki meitlað í stein að hann muni styðja þær tillögur sem muni koma fram um aðgerðir til að lækka skuldir. „Ég er náttúrulega ekki búinn að sjá neitt af þessu og lýsti því skýrt yfir fyrir kosningar að ef menn slettu fram óútfærðum tillögum um að taka 300 milljarða króna úr ríkissjóði myndi ég ekki styðja það. Ég sagði það líka að ef eitthvað fengist úr snjóhengjunni inn í ríkissjóð myndi ég nota það með öðrum hætti en að færa niður verðtryggð lán. Ég held að það myndi nýtast fólki betur að losna við sameiginlegar skuldir okkar, skuldir ríkissjóðs, sem kosta okkur tugi milljarða króna í vexti á ári. En ef það er til önnur lausn sem gerir ekki ráð fyrir því að þetta verði tekið úr ríkissjóði mun ég ekki setja mig á móti henni vegna þess að ég tel nauðsynlegt að staða heimilanna batni.“