„Nú gengur stjórnmálabaráttan út á boð og yfirboð um úthlutun „réttlætis“. Hugmyndin sem allir stjórnmálaflokkar gera nú út á liggur í því að heimta skatta í ríkissjóð og búa svo til reglur um hvernig eigi að útdeila peningunum til landsins barna til að bæta fyrir ranglætið sem þau hafi orðið fyrir [í hruninu]. Það er með öðrum orðum verið að reyna að setja reglur eftirá um hvert réttlætið hafi verið í liðnum tíma. Þetta er auðvitað ekki hægt,“ að mati Jóns Steinars Gunnlaugssonar, fyrrverandi dómara við Hæstarétt.

Morgunblaðið birtir í dag aðsenda grein eftir Jón Steinar þar sem hann fjallar um það sem hann kallar úthlutun réttlætis vegna forsendubrestsins svokallaða í hruninu, s.s. tillögur ríkisstjórnarinnar um skuldaniðurfellingu. Jóns Steinar segir alla vilja sneið af nægtarborðinu. En á sama tíma sé réttlæti eins ranglæti annars.

Jón Steinar skrifar:

„Þessir nýju hættir eru og munu verða áfram ávísun á óvinsældir þeirra stjórnarherra sem ráða hverju sinni og beita valdi sínu á þennan hátt, það er til að miðla út réttlæti fortíðar til borgaranna. Það er vegna þess að þeir sem fá að njóta munu ekki telja sig standa í neinni þakkarskuld. Þeim var einungis miðlað „réttlæti“. Hvers vegna ættu þeir að þurfa að þakka fyrir það? Hinir verða áfram óánægðir. Það er kostulegt að sjá stjórnmálaflokka, sem margir menn töldu styðja í meginatriðum gildandi þjóðskipulag á Íslandi taka fullan þátt í þessum galna leik.“