Vilhjálmur Egilsson, rektor Háskólans á BIfröst, segir að aldrei hefði átt að setja á fjármagnshöft hér á landi. Þetta sagði hann í viðtali í Sprengisandi í morgun.

Þá segir hann að í stað fjármagnshafta hefði verið heppilegra að láta gengi krónunnar að falla nægilega mikið til þess að náttúrulegur botn á genginu hefði getað myndast. Þá hefðu lífeyrissjóðir fengið færi á að safna að sér mikið af eignum mjög ódýrt. Þá væri t.a.m. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins í mun betri stöðu en hann er í dag.

Ef þessum náttúrulega botni hefði verið náð þá hefði gengið að öllum líkindum hækkað fljótt aftur og náð mun hærri stöðugleika en raunin varð á endanum innan hafta að mati Vilhjálms. Þá sagði hann enn fremur að ef fjármagnshöftin væru afnumin á morgun, þá myndu áhrifin vera mjög lítil.