Sú ákvörðun Fjármálaeftirlitsins að innheimta ríflega 40,2 milljónir króna af 22 fjármálafyrirtækjum vegna sérstakrar úttektar á lánasöfnum þeirra eftir gengislánadóma Hæstaréttar árið 2010 átti sér ekki stoð í lögum að mati umboðsmanns Alþingis. Segir hann að FME beri að endurgreiða fyrirtækjunum féð geri þau kröfu um slíkt. Samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda ber að reikna vexti á oftekin gjöld og ber að reikna dráttarvexti hafi greiðandi gert kröfu um endurgreiðslu.

Niðurstaða hans í stuttu máli er sú að starfsemi FME eigi að vera kostuð af hinu almenna eftirlitsgjaldi, sem reyndar ber flest merki skattlagningar þrátt fyrir nafnið, eða af varasjóði sem FME er heimilt að koma upp. Þessum sjóði er beinlínis ætlað að koma til móts við kostnað, t.d. vegna utanaðkomandi sérfræðiaðstoðar vegna eftirlitsúttekta.

Í ljósi þess að í lögum sé gert ráð fyrir því að almenna eftirlitsgjaldið standi undir starfsemi eftirlitsins og að varasjóður eigi að geta mætt ófyrirséðum útgjöldum verði að túlka þröngt heimild til álagningar þjónustugjalda.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér .