Grein um stöðu efnahagsmála hér á landi sem birt var á viðskiptavef bandarísku fréttastofunnar CNN í gær og landinu líkt við tifandi tímasprengju sem geti haft áhrif á meginlandi Evrópu er hrein steypa, að mati Gylfa Magnússonar, hagfræðings og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra. Hann segir í samtali við Fréttablaðið margt í greininni byggja á röngum forsendum, höfundur fari t.d. rangt með flestar hagtölur sem hann vísi í og geri engan greinarmun á gömlu bönkunum og þeim nýju.

Ásdís Kristjánsdóttir , forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, sagði í samtali við VB.is í gær rétt að áhættuþættir séu til staðar í haftaumhverfinu hér. Hún tók ekki undir þá fullyrðingu greinarhöfundar CNN að hrun blasi við. Hún sagði hann mála skrattann á vegginn.

Gylfi segir lítið hægt að gera við skrifum sem þessum. Kannski þurfi að skýrari skilaboðum um stöðu Íslands á framfæri við umheiminn svo að svona „rugl“ birtist ekki hvað eftir annað.

Gylfi bætir við í samtali við blaðið að á vettvangi hagfræðinnar séu fáir að velta stöðu Íslands fyrir sér. Þeir sem hafi gert það séu þeirrar skoðunar að Ísland hafi náð þokkalegum árangri og sé á réttri leið í endurreisn sinni.