Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar og formaður ráðherraráðs evruríkjanna, sagði í dag að almenningur á Grikklandi þyrfti að gera sér grein fyrir því að Grikkir væru á síðasta séns til að taka til í fjármálum landsins.

Þetta sagði Juncker eftir að hafa fundað með Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands.

Juncker fór þó lofsamlegum orðum um ríkisstjórn Grikklands og sagði hana hafa unnið þrekvirki í því að laga ríkisfjármálin. Hann sagði þó að framundan gætu verið erfiðir tímar fyrir grískan almenning, t.d. á grískum vinnumarkaði auk þess sem skera þyrfti verulega niður í opinberum rekstri.

Samaras sagði á fundi með blaðamönnum að gríska ríkisstjórnin myndi skera niður útgjöld um því sem nemur á 11,5 milljörðum evra og þær tillögur yrðu kynntar á næstu vikum. Hann sagði þó að það gæti tekið allt að tvö ár að ná varanlegum niðurskurði.