*

mánudagur, 13. júlí 2020
Innlent 5. nóvember 2019 17:45

Segir grunnfjármögnun Play lokið

Framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa segir grunnfjármögnun Play lokið með fyrirvara og skilyrðum.

Ritstjórn
Jóhann Ólafsson forstjóri Íslenskra verðbréfa segir Play vera vel útfærðan og áhugaverðan fjárfestingakost.

Jóhann M. Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslenskra verðbréfa, segir í samtali við turista.is að búið sé að ljúka grunnfjármögnun Play, hins nýja íslenska lággjaldaflugfélags sem kynnt var til sögunnar í dag. Fjármögnunin sé þó háð fyrirvörum um að viss skilyrði séu uppfyllt eins og endalega veitingu flugrekstrarleyfis. 

 Á blaðamannafundi um stofnun Play í dag kom fram að 80% fjármögnunarinnar kæmi frá bresku fjárfestingafélagi, en ekki hefur verið upplýst hvaða félag sé um að ræða. Þá kæmi 20% fjármögnunarinnar frá innlendum aðilum og hafa Íslensk verðbréf milligöngu um sölu þeirra. 

„Play hefur gert samning við Íslensk verðbréf um að halda utan um fjármögnun á félaginu frá innlendum og erlendum aðilum,” segir Jóhann M. Ólafsson í samtali við túrista.is. „Við tókum þetta verkefni að okkur því við teljum þetta mjög vel útfærðan og áhugaverðan fjárfestingakost og fundum strax fyrir miklum áhuga. Búið er að tryggja grunnfjármögnun að uppfylltum vissum fyrirvörum og skilyrðum, svo sem endanlega veitingu flugrekstrarleyfis.”

Stikkorð: Play Íslensk verðbréf