Gunnar Birgisson segir að Guðrún Pálsdóttir, fyrrverandi bæjarstjóri í Kópavogi, hafi verið leiksoppur örlaganna þegar núverandi meirihluti sjálfstæðismanna, framsóknarmanna og Y-listans leysti upp stöðu sviðsstjóra sem hún gegndi eftir að henni var sagt upp bæjarstjórastarfinu. Framkoma bæjaryfirvalda við hana sé til háborinnar skammar

Í aðsendri grein í Morgunblaðinu rifjar Gunnar upp að eftir Guðrúnu hafi verið sagt upp bæjarstjórastöðunni hafi allt gengið vel þar til Guðrún átti að koma til starfa og gera þurfti breytingar á skipuriti bæjarins vegna samningsins. „Þá bar svo við að bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins neitaði að standa við samninginn og málið komið í uppnám. Hvað skyldi nú hafa valdið þessari afstöðu Ómars? Á tíma Guðrúnar sem bæjarstjóra stækkaði Ómar íbúðarhúsnæði sitt og þurfti að greiða bænum gatnagerðargjöld. Hann fór fram á að greiða þau með jöfnum afborgunum. Þessu hafnaði Guðrún eðlilega, gat ekki annað, enda hefði hún með slíkum gjörningi mismunað öðrum byggjendum sem flestir gætu sjálfsagt notað tilslakanir á greiðslum. Þetta fór illa í bæjarfulltrúann og nú var komið að skuldadögum,“ segir Gunnar í greininni.

Gunnar segir að Guðrún hafi síðan á grundvelli tillagana um nýtt skipurit verið sett í sviðsstjórastarf án sviðs, þannig að hún sinnti ýmsum verkefnum. Sviðið hafi síðan verið lagt niður og ákveðið að segja Guðrúnu upp störfum. „Þegar aftakan hafði verið ákveðin var Guðrúnu birt uppsögnin af stefnuvotti í leigubíl. Sviðstjóri stjórnsýslusviðs sem hefur numið guðfræði og stjórnsýslufræði kvittaði undir aftökubréf í fjarveru bæjarstjóra,“ segir Gunnar.